Skilji ekki alvarleika orða sinna

Katrín sagði fráleitt að þingmennirnir reyni að „snúa málinu upp …
Katrín sagði fráleitt að þingmennirnir reyni að „snúa málinu upp í pólitískan spuna“ með því að tala um pólitíska aðför að þeim. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að viðbrögð þingmanna Miðflokksins við niðurstöðu siðanefndar Alþingis í Klaustursmálinu hafi komið sér á óvart og að þingmennrnir virðist ekki enn skilja alvarleika sinna orða í garð þeirra sem um var rætt um barnum Klaustri í nóvember.

Þetta sagði Katrín í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Hún sagði jafnframt fráleitt að þingmennirnir reyni að „snúa málinu upp í pólitískan spuna“ með því að tala um pólitíska aðför að þeim.

„[Þ]að var auðvitað enginn annar sem talaði á þessari tilteknu krá en þessir þingmenn og því er ekki hægt að snúa upp í einhverja pólitíska aðför annarra að þeim,“ sagði forsætisráðherra, en í gær mætti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í viðtal í myndveri RÚV og sagði að hann teldi sig hafa verið „meginskotmarkið í þessari aðgerð“ og niðurstaða siðanefndar, sem forsætisnefnd Alþingis gerði að sinni, hefði sýnt hversu fáránleg vegferð málið hefði verið.

Katrín sagðist þó ekki sammála því, sem Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra stakk upp á á Facebook-síðu sinni í gær, að brot gegn siðareglum ætti að hafa einhver sérstök viðurlög.

Katrín sagði jafnframt, í kvöldfréttum Stöðvar 2, að ef siðareglur alþingismanna ættu að virka sem skyldi, þyrfti að taka þær til endurskoðunar innan þingsins. Einnig var haft eftir henni að hún teldi að skýra ætti gildissvið reglnanna rúmt, þannig að þær gildi um þingmenn hvar sem þeir eru á opinberum vettvangi.

mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert