„Þessi ævintýrastaður á í mér hvert bein,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, sem með sínu fólki dvelst í Flatey á Breiðafirði nú um verslunarmannahelgina. Búist er við fjölmenni þangað, enda verður þar bryddað upp á mörgu skemmtilegu og sjálfsprottnu.
Í gærkvöldi var dansleikur með hljómsveitinni GÓSS og söngkonunni Sigríði Thorlacius í samkomuhúsi eyjunnar og í Frystihúsinu verður bingó og barsvar, það er spurningakeppni, í kvöld. Á sunnudagskvöld verða tónleikar með hljómsveitinni Ylju.
„Ég hef tengst Flatey allt mitt líf og hér líður okkur vel. Stemningin sem hér myndast oft meðal fólks er ljúf og góð,“ segir Anna Sigrún, sem er aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans. Hún er dóttir þeirra Baldurs Ragnarssonar og Guðrúnar Mörtu Ársælsdóttur úr Stykkishólmi. Þau eru nú, komin á eftirlaunaaldur, flutt út í Flatey og fara á fastalandið á eigin báti sé þess þörf. Annars eru samgöngur við eyna með besta móti. Ferjan Baldur sem siglir yfir Breiðafjörð milli Stykkishólms og Brjánslækjar tvisvar á dag kemur við í Flatey og þar hafa margir viðstöðu milli ferða, enda er margt að sjá og skoða.
Sjá samtal við Önnu Sigrúnu í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.