Sigurður Bogi Sævarsson
Áætlunarferðum Air Iceland Connect milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verður fækkað úr tveimur í eina á dag, þriðjudaga og miðvikudaga, frá nóvember og fram í febrúar á komandi vetri.
Þá verður ferðum í Egilsstaðaflugi á sömu dögum og tímabili fækkað úr þremur í tvær.
Í Ísafjarðarflugi hefur gangurinn verið sá að flogið er vestur árla dagsins og svo aftur undir kvöld. Í svartasta skammdeginu er hins vegar skemmra milli ferða, í þá fyrri er lagt upp kl. 10:15 og til baka aftur klukkan 11:20 og svo er önnur ferð vestur kl. 15:20 og flogið að vestan kl. 16:25. Kemur þar til að taka þarf sjónflug í björtu um þröngan Skutulsfjörð þegar lent er á Ísafjarðarflugvelli og slíkt er ekki mögulegt þegar dimmt er orðið. Vélar af gerðinni Bombardier Q200 sem taka 37 farþega eru notaðar í Ísafjarðarfluginu. „Nú fellum við út aðra ferðina á Ísafjörð þessa tvo daga vikunnar um háveturinn þegar að jafnaði fæstir farþegar eru. Erum með þessu að bregðast við aðstæðum á markaði,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.
Þessi rök, segir Árni, gilda einnig um Egilsstaðaflugið; að ferðir þangað tvo daga í vetur verði tvær í stað þriggja um háveturinn. Í fluginu þangað hafi jöfnum höndum verið notaðar Bombardier Q200 og Q400, en hinar síðarnefndu taka 76 farþega. Raunar hafi nú verið ákveðið að fækka og selja úr flotanum eina vél af hvorri gerð, þannig að félagið verður í framtíðinni með tvær Q200 vélar og aðrar tvær Q400.