„Þeir eru að gera þetta „cut“ alltof snemma. Við erum nánast ekki hálfnuð með leikana þegar þau skera niður í 10. Og mér finnst það ekki rétt. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra hvernig mér líður.“ Ég er bara með svona tóma tilfinningu í mér, segir Annie Mist Þórisdóttir crossfitkappi.
Annie Mist Þórisdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hafa báðar lokið keppni á heimsleikunum í crossfit sem fara fram í Madison Wisconsin. Katrín Tanja Davíðsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir komust áfram í gegnum niðurskurðinn í dag, en aðeins 10 keppendur taka þátt í æfingum hér eftir. Þá komst Björgvin Karl Guðmundsson einnig áfram í gegnum niðurskurðinn í karlaflokki.
Annie Mist er tvöfaldur heimsmeistari í crossfit og keppti á sínum tíundu leikum í ár. Það var því ekki nema von að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum í dag þegar hún endaði í tólfta sæti.
„Mér finnst þetta náttúrulega bara glatað. Ég lenti á vegg í gær í einni af keppnunum og það kostar mig í rauninni bara allt. Allt sem maður er búin að leggja á sig til að gera sig tilbúna og fá sex keppnir til að sýna það og engan þunga eða neitt,“ segir Annie í samtali við mbl.is.
„Ég elska crossfit en mér finnst þetta svo mikil mistök hjá þeim, þú ert ekki að ná rétta fólkinu í gegn. Með fullri virðingu fyrir þeim sem eru í topp 10, þá finnur þú ekki topp 10 bestu stelpurnar með sex keppnum,“ segir Annie.
Fyrsta æfing dagsins í dag var sprettur þar sem keppendum var skipt í riðla og bestu tímarnir fóru áfram í undanúrslit. Annie Mist þurfti því miður að sitja eftir.
„Mér finnst leiðinlegt að tímabilið endi svona hjá mér, að það séu sex stig sem kosta mig að komast áfram.“
Annie segir jafnvægið í æfingunum ekki hafa verið í samræmi við það að verið væri að skera niður mikinn fjölda keppenda snemma í leikunum. Hún segir eðlilegt að mikið sé um hlaup og fimleika, en að fjölmargir keppendur hafi ekki fengið tækifæri til að sýna hvað í þeim býr í lyftingum og þyngri æfingum.
„Núna veit ég líka að af þessum topp 10 eru svona þrjár stelpur sem eiga eftir að vera topp 3 í hverri keppni sem eftir er þegar þeir setja meira af lyftingum. Ég trúi því að Tia (Tia-Clair Toomey) sé best af stelpunum sem eftir eru og hún á skilið að vera í fyrsta sæti og á eftir að vinna leikana, en ég held að hún eigi ekki eftir að fá neina samkeppni í næstu keppnum. Þetta á bara eftir að verða of auðvelt.“
Annie segist fyrst og fremst svekkt að hafa ekki fengið tækifæri til að klára tankinn og ganga frá leikunum vitandi að hún ætti ekkert inni.
„Alltaf þegar maður klárar leikana veistu kannski ekki hvar þú endar og það skiptir ekki máli en þú ert að klára leikana og leggja allt inn, gerir allt sem þú getur. En mér líður bara vel. Ég er ekki búin að fá að „testa“ það sem ég þurfti að testa. Ég er tiltölulega fersk í líkamanum, þetta var léttara en þrír æfingadagar hjá mér.
„Gærdagurinn var fínn og þetta voru fínar æfingar sem komu ég ætla ekki að setja út á það, en ég ætla að setja út á að það hafi ekki verið fleiri test áður en það var skorið niður,“ segir Annie.
„Það eru stór nöfn sem eru bara dottin út. Ég hef fulla trú á því að ég sé mikið betri heldur en þetta. Mér finnst svo leiðinlegt að geta ekki sýnt það, að fá ekki að klára að keppa. Það er þessi tómatilfinning sem maður fær. Þetta er ekki eins og þetta á að vera að mínu mati.“
Annie segist vona að niðurskurður svo snemma í leikunum verði endurskoðaður fyrir næsta ár.
„Þetta er náttúrulega í fyrsta skiptið sem þeir prófa þetta og ég trúi ekki öðru en að þeir eigi eftir að læra af þessu. Það eru margir mjög ósáttir.“
Aðspurð hvað Annie hyggst gera á næstu dögum segist hún ekkert hafa ákveðið.
„Ég veit það ekki ennþá, þetta er svo nýskeð. Maður er ennþá bara með smá tómatilfinningu inni í sér. Mér líður ekki eins og leikarnir séu búnir. Yfirleitt er maður svo búin á því. Ég veit ekki hvað ég geri næstu daga. Maður vill heyra hvort að hlutirnir eigi að vera svona. Ég veit það ekki, ég ætla bara að jafna mig aðeins og finna hvatninguna. Það dregur náttúrulega úr manni að þetta sé svona. Manni líður eins og þetta sé bara óréttlæti.
„Svo tekur maður bara næstu skref og planar framhaldið. Ég er á góðum stað líkamlega, hef sjaldan farið jafn slök inn í leikana og ég gerði í ár. Og ég nýt þess að gera það sem ég geri. Ég nýt þess að keppa og æfa og elska að fá að gera það. Það er ekkert að fara breytast en maður þarf smá tíma til að jafna sig eftir þetta.“