Reynslan sýnir að fólk er að taka sénsa

Lögregla stöðvaði alla bíla sem fóru um Landeyjarhöfn í dag …
Lögregla stöðvaði alla bíla sem fóru um Landeyjarhöfn í dag og lét bílstjórann blása. Allt var í lagi hjá þessum ökumanni. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Suðurlandi hefur verið með viðveru í Landeyjahöfn í dag og látið þá bílstjóra sem eru á leið í og úr Herjólfi blása í áfengismæli.

„Við verum búin að vera að láta bera aðeins á okkur,“ segir Atli Árdal Ólafsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. „Við settum upp pósta og stoppuðum alla bíla sem fóru um og létum ökumenn blása til þess að kanna ástand og réttindi.“

Hann segir lögreglu hafa stöðvað tuga bíla í dag. „Það hafa allir tekið þessu vel og höfðu orð á því.“ Ekki reyndust þó allir í ökuhæfu ástandi. „Við þurftum að stoppa aksturinn hjá nokkrum,“ bætir hann við og segir einum fjórum ökumönnum hafa verið meinað að halda för sinni áfram að svo stöddu.

Með öflugt eftirlit

Rennsli af fólki hefur verið um Landeyjahöfn í allan dag, þó umferðin sé mun minni en í gær. Atli segir því fulla ástæðu fyrir lögreglu að láta bílstjóra blása. „Reynslan segir okkur að fólk er að taka þessa sénsa og það er það sem okkur finnst verst í þessu. Það sýnir sig þegar við gerum þessi tékk að þá er fólk að keyra sem á ekki að keyra af því að það er búið að fá sér aðeins í tánna.“

Verslunarmannahelgin er stærsta helgin hjá lögreglunni á Suðurlandi sem þarf að hafa töluverðan viðbúnað um eina af stærstu ferðahelgum ársins. Það er því lítið um sumarfrí hjá lögreglumönnum þessa helgina, enda verður hún áfram með eftirlit á morgun og mánudag.

„ Við vorum þarna í dag, en ég veit ekkert hvar við verðum á morgun,“ segir Atli.  „Við höldum þessu þó áfram, af því að þetta er það sem við þurfum að gera. Við erum með gríðarlega öflugt eftirlit og erum með bæði merkta og ómerkta bíla í þessu.“

Hann segir helgina hafa verið stórslysalausa til þessa og kveðst þakka það öllu eftirlitinu. „Við erum að fá á sjöunda þúsunda bíla í gegn á Hellu og í gær fóru um 17.000 bílar um undir Ingólfsfjalli. Þannig að þetta er engin smá umferð, en sem betur fer er það sem gerst hefur til þessa minniháttar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert