Sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hafa nú lokið athugunum sínum og sýnatöku á grindhvölunum sem drápust í fjörunni nærri Garðskagavita í gærkvöldi og nótt. Á milli 50 og 60 hvalir gengu þar á land í gærkvöldi og var stór hópur fólks að störfum í nótt við að halda grindhvölunum á lífi. Björgunarsveitir og lögregluyfirvöld komu að aðgerðunum á tíunda tímanum í gærkvöldi en þá voru sjálfboðaliðar þegar mættir á svæðið.
Þeir Sverrir Daníel Halldórsson og Þorvaldur Gunnlaugsson, sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun, komu svo á vettvang í dag eftir að búið var að búið var að bjarga um 30 hvölum og koma á haf út.
Í skriflegum svörum Sverris við fyrirspurn mbl.is kemur fram að 14 dýr hafi verið í fjörunni er þeir komu á vettvang, þar af tveir kálfar. Samanstóð hópurinn af 11 kúm og þremur törfum og reyndist stærsti tarfurinn vera 459cm langur og stærsta kýrin 439 cm.
Tóku þeir Þorvaldur erfðasýni úr dýrunum og gerðu mælingar til að meta holdafar þeirra og þá voru einnig tekin blóðsýni til bakteríu- og veiruskimunar.
Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að björgunarsveitarmenn hafi unnið afrek við að koma hinum hvölunum til sjávar á ný.
Hún telur líklegt að einhverjir hvalanna muni stranda aftur og deyja, en ef þeir nái fullum bata geti þeir lifað í 40–60 ár. Grindhvalirnir geta lifað í um það bil sólarhring á þurru landi.