Ekki í stjórnmálum til að verða vinsæll

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segir allt samhengi vanta í umfjöllun fjölmiðla og siðanefndar Alþingis um Klaustursmálið svokallaða. Segir hann tóninn í Klaustursmönnum vera orðinn grimmari í kjölfar álits siðanefndar, en að afsökunarbeiðnir sínar vegna ummæla sinna gildi enn. 

Gunnar Bragi var gestur Kristján Kristjánssonar í Sprengisandi á Bylgjunni í dag. 

Kristján hafði það á orði að tónn Miðflokksmanna sé nokkur annar nú eftir að niðurstaða forsætisnefndar liggur fyrir, en hann var þegar málið kom fyrst upp. 

„Það getur verið að línan sé aðeins harðari. En engu að síður þá gilda þær afsökunarbeiðnir áfram sem ég hafði uppi þegar þetta komst upp allt saman. Hvað sem líður þessu ferli öllu saman og pólitíkinni þá á maður náttúrulega að reyna að tala ekki með þeim hætti sem þarna var gert,“ segir Gunnar Bragi. 

Segir hlutina hafa verið tekna úr samhengi

„Svo hinsvegar tekur við ákveðið ferli sem varpar kannski ljósi á hlutina, samhengið verður skýrara, klippur sem fjölmiðlar nýttu sér eru settar allt í einu í samhengi og málið verður öðruvísi. 

„Ég leyfi mér að fullyrða að það sem ég segi þarna er að einstök atvik eru slitin úr samhengi sem gera þau miklu verri en þau voru í rauninni. En það breytir því ekki að ef maður segir einhvern vera apakött eða fífl eða asna þá er bara sjálfsagt að biðjast afsökunar á því. Ég sé alveg jafn mikið eftir þessu kvöldi nú og þá.“

Klaustursmenn.
Klaustursmenn.

Þá segir Kristján að tóninn í Gunnari gefa það ekki til kynna að eftirsjáin sé mikil, þar sem Miðflokksmenn hafi fyrst og fremst gagnrýnt ferli málsins innan Alþingis þegar þeir hafi að undanförnu tjáð sig um málið. 

„Þetta er bara hlutur sem hefur ekki verið sagður til þessa en er svo augljós í gegnum allt ferlið. Ég meina það eru 10, 11 manns búnir að segja sig frá þessu máli vegna vanhæfis. Þá eru eftir tveir í siðanefndinni, annar þeirra var nú þegar búin að lýsa yfir efasemdum um að þetta heyrði undir nefndina, þá er eftir einn sem virðist vera með þetta á hreinu. Ég segi það alveg hiklaust að þegar maður les handritið sem alþingi lét gera, við höfum ekkert nema þetta handrit, við höfum aldrei fengið þessar upptökur og vitum ekki einu sinni hvort að handritið sé rétt. Svo kemur í ljós að það er misræmi á milli þess sem siðanefndin skrifar og hvað er í handritinu.“

Eðlilegt að tónninn sé grimmari 

„Það er ekkert óeðlilegt að að mínu viti að tónninn sé grimmari núna í mér eða okkur gagnvart þessum þætti. Og líka gagnvart þeim fjölmiðlum sem ákváðu að taka þessi samtöl og slíta þau öll í sundur, byggt á ólöglegum upptökum að taka bara einhverja búta og skoða ekkert heildarsamhengið. Það er ekkert undarlegt að menn séu aðeins grimmari í tóninum en það breytist ekkert að maður sér eftir þessu.“

Spyr Kristján þá hvort að Gunnar Bragi telji að Klaustursmálið hafi verið Miðflokknum til framdráttar. 

„Ég veit ekkert hvort þetta hefur verið okkur til framdráttar. Það er engin í stjórnmálum til að vera vinsæll, þú ferð í stjórnmál út af verkum og stefnu og málefnum. Ef að það kemur í ljós eftir tvö ár að stuðningsmenn og kjósendur vilja refsa okkur fyrir þetta þá gera þeir það að sjálfsögðu.“

Upptökurnar engin tilviljun

Gunnar segist vera á þeirri skoðun að upptökurnar hafi ekki verið tilviljanakenndar.

„Ég held að það sé engin tilviljun að þessi upptaka var gerð. Við rökstyðjum það í okkar málflutningi til nefndarinnar að það eru ákveðin atriði þarna sem augljóslega eru ekki hluti af einhverri tilviljun. 

Það er hinsvegar ekki stóra málið í þessu. Stóra málið er að sjálfsögðu það að persónunefnd komst að því að þetta væru ólöglegar upptökur, Alþingi heldur áfram með sitt pólitíska ferli, pólitískir andstæðingar að dæma aðra pólitíska andstæðinga, upptökurnar dæmdar ólöglegar og þá ákveður siðanefndin og forsætisnefndin að styðjast við fjölmiðlaumfjöllun. Nú ætla ég að leyfa mér að segja það að því miður er það nú ekki alltaf þannig að fjölmiðlum sé best treystandi þó að margir vilji meina það,“ segir Gunnar og tekur sem dæmi mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.  

„Þegar að mál Samfylkingarþingmannsins kemur upp sem að var sakaður um og viðurkenndi kynferðislega áreitni, þá flytur Ríkisútvarpið á ákveðnu tímabili um 70 fréttir af mér en 18 fréttir af þessum ákveðna þingmanni. Einhverjir hefðu sagt að þetta sé alvarlegra brot. Á maður að treysta Ríkisútvarpinu til að fjalla óhlutdrægt um þessi mál með þessum hætti, að sjálfsögðu geri ég það ekki.“ 

Segir upptökurnar ekki bera saman við umfjöllun fjölmiðla

Þá bendir Kristján á að forsætisnefnd hafi borið upptökurnar saman við fjölmiðlaumfjöllun til að sannreyna að rétt væri með upplýsingarnar farið. 

Þá segir Gunnar að handriti Alþingis beri ekki saman við fjölmiðlaumfjöllun og spyr hvers vegna þingmennirnir sex hafi ekki fengið upptökurnar þegar þeir óskuðu eftir því, löngu áður en þeim var eytt. 

Klausturbar.
Klausturbar. mbl.is/Hari

Þá hefur Kristján það á orði að Klaustursmenn hafi fremur verið að blása málið upp á neikvæðan hátt í stað þess að reyna að hreinsa sig af málinu. 

„Þetta eru tvö mál að mínu viti. Þetta er annars vegar það sem við segjum þarna og sjáum eftir og hinsvegar þetta ferli sem Alþingi setur af stað. Hvað mig varðar, þá að sjálfsögðu sé ég eftir og það var ekki rétt að tala með þessum hætti, en hinsvegar kemur það ekkert í veg fyrir að ég gagnrýni harkalega þetta ferli sem sett var af stað og er meingallað. Það getur ekki verið eðlilegt að pólitískir andstæðingar dæma annan mann.“

Ummælin um Írisi ekki kynferðisleg

Kristján spyr þá Gunnar hvort að hægt sé að fjalla um málið yfirhöfuð ef ekki sé hægt að komast að samkomulagi um það hver sé háður og hver óháður. 

„Við skulum ekki útiloka að það sé hægt en ég er ekki með lausnina. Mér finnst að siðaviðmið eigi að vera til staðar og einhverjar reglur. Mér finnst mjög bratt að ætla að teygja þessar siðareglur inn á öldurhús, inn á kaffihús, inn á þorrablót. Hvar eru mörkin? 

„Það er mikið talað um orð Bergþórs Ólasonar um Írisi Róbertsdóttur. Ef menn skoða allt það samtal, þá gengur það meira og minna út á að hæla þeirri konu, segja hvað hún hafi verið öflug. Menn segja hinsvegar ókei, hún er ekki nógu sæt eða sexí í dag til hvers? til að leiða Sjálfstæðisflokkinn, af því að þeir munu líta á hana þannig. Þetta var ekki kynferðisleg tilvitnun, þetta var pólitískt. Vegna þess að það er stuðst við einhverjar setningar úr fjölmiðlum sem eru teknar úr samhengi.“

Þá rifjar Kristján upp að á þeim tíma sem Gunnar Bragi var utanríkisráðherra hafi hann komið fram fyrir hönd Íslendinga í umræðum og á viðburðum á alþjóðavettvangi sem sneru að jafnrétti kynjanna. 

„Hvaða ummæli lét ég nákvæmlega falla sem eru á skjön við þetta? spyr Gunnar þá. Þetta breytir ekki sýn minni að það þarf að efla konur og þeirra störf. Nú erum við að sjá frá utanríkisráðuneytinu þar sem aldrei fleiri konur hafa verið í forsvari fyrir sendiskrifstofur. Og það er ekki núverandi ráðherra að þakka, það er þeim sem hér situr að tala við þig, sem fjölgaði konum sem sendiherrum. Ég gerði það ekki vegna þess að ég er einhver kvenhatari, ég gerði það því ég trúi á konur og trúi enn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka