„Þegar ég ranka við mér er ég að renna út af vinstri kantinum, bíllinn hafði ekki oltið, hann var á undanhaldi undan brekkunni og ég áttaði mig á að það yrði ekki umflúið að bíllinn myndi velta. Ég man þegar hann var við það að velta fram af kantinum og svo það næsta sem ég man er þegar hann var lentur utanvegar og ég hangandi í beltinu á hvolfi,“ segir Sigurjón Þórsson, bílstjóri hjá Olíudreifingu, við Morgunblaðið en hann varð fyrir því óláni í liðinni viku að olíubíll sem hann ók valt á þjóðvegi 1 um Öxnadalsheiði, skammt vestan Grjótár.
„Það sem gerðist var að ég dottaði eitt augnablik undir stýri með þessum afleiðingum,“ segir Sigurjón sem liggur enn á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Sigurjón lagði upp frá Akureyri miðvikudagsmorguninn 24. júlí með um 30 þúsund lítra af skipagasolíu og var á leið fyrst til Sauðárkróks og síðan Siglufjarðar. Óhappið varð kl. 11.15, eftir um það bil hálftíma akstur.
„Þegar ég fer yfir þetta eftir á þá hef ég eflaust verið þreyttur, en hundsað það, ég hafði unnið mikið dagana á undan, en mér fannst ég alveg hress þegar ég mætti til vinnu um morguninn,“ segir hann.
Sigurjón hefur verið að vinna aukastarf á leigubíl um helgar, til þess að ná endum saman. Þegar þarna var komið við sögu var hann búinn að vinna tvær helgar í röð, ofan á dagvinnuna. Það segir hann hafa verið grunninn að þreytu sinni, en ekki vinnuálagið hjá Olíudreifingu.
Sigurjón segist hafa dottið út í eitt augnablik en það nægði til að svo fór sem fór. „Ég man að ég hugsaði; þetta verður eitthvað, þegar bíllinn var við það að velta fram af.“
Bíllinn var enn í gangi og segir Sigurjón að sín fyrsta hugsun hafi verið að slökkva á honum, lykillinn var brotinn í svissinum og því ekki hægt að drepa á bílnum með honum. Hann fór að teygja sig eftir útsláttarrofa bílsins, en innréttingar höfðu allar gengið úr skorðum, rofinn var ekki á sínum stað auk þess sem það bætti ekki úr skák að vera meiddur og á hvolfi við leitina.
Það tókst þó að lokum að drepa á vél bílsins. Þá var næsta hugsun Sigurjóns að losa sig og koma sér úr bílbeltinu. Það gekk eftir nokkrar tilraunir.
„Ég féll aðeins niður og reyni svo að koma mér inn í miðjan topp bílsins og grúfa mig niður. Þannig var staðan þegar fyrstu menn komu á vettvang, en það voru starfsmenn frá verktakafyrirtækinu Víðimelsbræðrum sem voru við vinnu sína í námunda við slysstað. Aðrir vegfarendur komu einnig fljótt að og allt gekk snuðrulaust fyrir sig að mér fannst á slysstaðnum. Ég óskaði eindregið eftir því að vera togaður út úr bílnum, heyrnin var í lagi og ég varð var við að olían lak úr bílnum,“ segir Sigurjón. „Ég þorði bara alls ekki að vera lengur þarna inni.“
Hann segir að sér hafi einnig verið mjög kalt og því fyrir alla muni viljað komast út og fá aðhlynningu. Sjálfur hafi hann verið nokkuð viss um að óhætt væri að toga sig út, hann fann vel fyrir útlimum og taldi ólíklegt að mænan hefði skaðast í slysinu. Dýna úr koju olíubílsins var lögð á jörðina og teppi fundust hér og þar þannig að búið var um Sigurjón þar til læknir og sjúkrabíll komu á staðinn. Á slysstað var rætt hvort kalla ætti út þyrlu og flytja hann suður til Reykjavíkur eða senda hann með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri sem úr varð.
Sigurjón hlaut margvíslega áverka í slysinu og verður lengi að ná bata, sjálfur telur hann ekki ólíklegt að hann verði á sjúkrahúsi fram eftir ágústmánuði eða jafnvel fram í september.
„Ég veit auðvitað ekki á þessari stundu hversu lengi ég verð að jafna mig á þessu en bý mig undir að það verði langur tími,“ segir hann, en 6 rifbein aftan til í baki eru brotin, loftbrjóst myndaðist á vinstra lunga og vökvasöfnun, hann hruflaðist umtalsvert og er mikið marinn, einkum á vinstri hlið og styrkur vinstri handar er skertur. Þá hlaut hann áverka á milta sem leiddi til þess að í vikunni var hann fluttur suður á Landspítala með sjúkraflugi í aðgerð. Æðar í milta höfðu farið í sundur og myndað slagæðagúlp sem hætta var á að gæti sprungið. „Það varð þarna bráðainngrip, nauðsynlegt þótti að bregðast hratt við. Aðgerðin var gerð fyrir sunnan og ég svo sendur aftur norður,“ segir hann.
Sigurjón stóð á tímamótum þegar óhappið varð, hafði sagt upp störfum sínum hjá Olíudreifingu á Akureyri þar sem hann hafði starfað síðan í júní í fyrra. Hann hugðist hætta störfum 9. ágúst næstkomandi og flytja austur á Höfn í Hornafirði þar sem hann hafði fengið starf sem leiðbeinandi við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu. Hann hafði áður kennt við framhaldsskóla eina önn og líkaði vel auk þess sem hann hafði innritað sig í fjarnám til kennsluréttinda við Háskólann á Akureyri. Sigurjón er stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og iðnaðartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík.
„Öll mín plön eru auðvitað í kjölfar þessa slyss fokin út í veður og vind og ég þarf í rólegheitum að hugsa framtíðina upp á nýtt,“ segir Sigurjón. Ljóst er að hann mun ekki geta sinnt starfinu á Höfn, en hann gælir enn við að halda áfram kennsluréttindanáminu.
„Það kemur bara í ljós þegar líður á hvort ég hafi þrek til þess,“ segir hann. Sigurjón er fæddur og uppalinn á Djúpavogi og þar búa foreldrar hans sem hafi boðið honum að flytja til sín á meðan hann nær bata. „Sá möguleiki er fyrir hendi og gott til þess að vita, en ég ætla að sjá aðeins til hvernig mér reiðir af áður en ég ákveð mig. Þetta verður langt bataferli,“ segir hann.
Sigurjón segist hafa verið undir nokkru álagi undanfarið ár og í raun megi rekja þá sögu lengra aftur í tímann, til barnæsku hans. Sigurjón var á æskuárum greindur með einhverfu, Aspergerheilkenni, en hafði áður verið misgreindur með þroskaskerðingu og þau ummæli fylgdu að líkast til ætti barnið aldrei eftir að læra að lesa og skrifa.
Sú hrakspá gekk ekki eftir og hefur Sigurjóni gengið ágætlega að læra, en hann féll ekki alls kostar inn í hóp skólafélaganna, var á öðru róli og því varð hans hlutskipti líkt og margra sem eins háttar um að lenda í einelti.
„Þetta lagðist allt fremur þungt á mig en ég reyndi hvað ég gat að paufast áfram lífsins veg og hóf nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þar fór ég alveg á fullt í námi og félagslífi sem endaði með því að ég brann hreinlega yfir og leiddi hugann að því að binda enda á líf mitt. Sem betur fer varð ekki úr þeim áformum mínum og ég fékk þá hjálp sem ég þurfti.“
Sigurjón á þrjá drengi, níu, sex og fjögurra ára. Í september á liðnu ári fæddist honum og þáverandi eiginkonu hans andvana drengur og segir hann að það hafi verið gríðarlegt áfall, stærra en önnur sem hann hafi lent í. Það var fjölskyldunni allri þung raun og þungur baggi að bera. Svo fór að hjónabandið hélt ekki við þær aðstæður og við tók skilnaður.
Sigurjón flutti út frá fjölskyldu sinni í febrúar fyrr á þessu ári og segir að eftir það hafi leiðin legið niður á við, sér hafi fundist allt ganga sér í mót bæði í einkalífi og vinnu, þar sem komu upp tafir, bilanir og eigin klaufaskapur eins og hann orðar það sem gerði að verkum að andlega hliðin var veikburða.
„Ég var dapur og fannst ekki neitt ganga upp hjá mér. Í byrjun mars er ég á ferðinni fyrir austan og þá sótti mjög sterkt á mig að þetta væri komið nóg og best að ljúka þessu bara endanlega. En þá komu strákarnir mínir upp í hugann, ég vil vera til staðar fyrir þá. Mamma hvatti mig eindregið til að leita á bráðamóttöku daginn eftir hvað ég gerði og fékk aðstoð, þá fór í gang ferli sem varð til þess að ég fór að sjá bjartari hluta tilverunnar á nýjan leik,“ segir Sigurjón.
Hann segir síðustu mánuði hafa verið þokkalega. „En auðvitað hef ég keyrt mig svolítið út í vinnu, fjárhagsstaðan var eftir skilnaðinn frekar bágborin þannig að ég reyndi hvað ég gat að vinna eins mikið og hægt var,“ segir hann að endingu.