Sprettu yfir hálendið um helgina

Hlaupararnir sex á fyrstu metrunum á Akureyri á föstudaginn.
Hlaupararnir sex á fyrstu metrunum á Akureyri á föstudaginn. mbl.is/Þorgeir

Sex vaskir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa puðað meira en flestir þessa verslunarmannahelgina. Í dag luku þeir 340 kílómetra hlaupi yfir hálendið, frá Akureyri á Selfoss. Hörður Halldórsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður á Akureyri segist himinlifandi með að vera kominn í mark, en það gerði hópurinn um kl. 11 í morgun.

„Það er kraftaverki líkast hvað þetta gekk allt vel upp,“ segir Hörður, en hópurinn kallar þennan gjörning að „ganga af göflunum“ og safnar með honum áheitum fyrir Hollvini Sjúkrahússins á Akureyri, sem ætla að kaupa nýja hitakassa fyrir veika nýbura og fyrirbura nyrðra.

Hópurinn fékk glæsilegar móttökur á Selfossi, en slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu fylgdu þeim síðasta spölinn að Selfossi á tækjakosti sínum. Hópurinn var einmitt skipaður fólki frá Slökkviliði Akureyrar, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Slökkviliði A-Húnvetninga og Brunavörnum Árnessýslu.

Tveggja daga hlaup

Lagt var af stað frá Akureyri um hádegisbil á föstudag. Síðan þá hefur hvíldin verið lítil, en hlaupið var með nokkurskonar boðhlaupsfyrirkomulagi og farið um á fjórum bifreiðum frá Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri.

„Við hlupum í 40 tíma og sváfum í einhverja 6-7 tíma,“ segir Hörður, þreyttur, en ánægður. Hann segir að erfiðasti leggurinn hafi verið sá lengsti, 109 kílómetrar sem teknir voru í einu trukki frá Versölum að Árnesi.

„Dagstúrinn hjá okkur var svona 22-37 kílómetrar á kjaft yfir daginn,“ segir Hörður en fólk hljóp mismikið. Einhverjir fundu fyrir eymslum á leiðinni, en enginn þó alvarlegum. Allir pössuðu að vera með smyrsli á réttum stöðum, enda fátt óþægilegra en núningssár á hlaupum.

„Þetta reyndi á þrautseigju, þetta var þrautseigjuverkefni. Maður hljóp bara og setti sér markmið um hvað maður ætlaði að hlaupa langt. Svo var þreyta og svefnleysi. Þetta var bara þó nokkuð mikil raun,“ segir Hörður.

Þeir sem vilja styrkja framtakið geta lagt fé inn á bankareikning Hollvinasamtaka Sjúkrahúss Akureyrar.

Kennitala: 640216-0500
Rknr: 0565-26-10321

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert