„Ekkert sem stoppar“ WAB air núna

Tímabundnar höfuðstöðvar WAB verða við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, þar sem …
Tímabundnar höfuðstöðvar WAB verða við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, þar sem Actavis var áður til húsa. Skjáskot/ja.is

„Ég er alveg grjótharður á þessu. Það er ekkert sem stoppar okkur þessa stundina,“ segir Sveinn Ingi Steinþórsson, forstjóri og stofnandi nýs flugfélags sem ber vinnuheitið WAB air. Hann og hans fólk hófu störf í morgun á nýrri skrifstofu á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, þar sem Actavis hafði áður aðstöðu.

„Það er ágætt að vera komin með heimili,“ segir Sveinn. Vinnan að félaginu hefur staðið yfir síðan í apríl en hefur hingað til farið fram með „hvern í sínu horni,“ segir Sveinn. Nú er markmiðið að afla flugrekstrarleyfis, svo að vonandi megi fljúga jómfrúarflugið með haustinu. Nánari tímasetning á þau áform fæst ekki upp gefin, enda of snemmt, að sögn Sveins.

Hann gerir ráð fyrir að í september verði starfsmenn allt að 30 og í því tilfelli verður unnt að bæta álmu í húsinu við starfsemina, en húsnæðið sem nú er í notkun eru 300 fermetrar. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að félagið hefði komið sér fyrir í nýju húsnæði.

Sveinn Ingi Steinþórsson er forstjóri nýja félagsins. Hann segir gott …
Sveinn Ingi Steinþórsson er forstjóri nýja félagsins. Hann segir gott að vera kominn með heimili. Ljósmynd/LinkedIn

„Hætt að pæla“ í eignum WOW

Sveinn segir að hann og fólkið sem stendur að stofnun félagsins með honum hafi „hætt að pæla“ í að festa kaup á eignum úr þrotabúi WOW air í júní, þegar ljóst var að ekki yrði af þeim kaupum. „Nú erum við að gera þetta alveg á okkar eigin forsendum,“ segir hann. „Við erum hvorki að fara að kaupa vörumerki né annað.“

WAB air, skammstöfun fyrir We Are Back, var nafn sem haft var í gríni um félagið við stofnun þess og er nú vinnutitill. Það verður vitaskuld ekki nafn félagsins, segir Sveinn. „Ásamt því sem við erum að vinna að því að uppfylla skilyrðin fyrir flugrekstrarleyfi erum við að ræða við markaðsskrifstofur um hvernig er best að hátta næstu skrefum,“ segir hann. Þannig eigi eftir að koma í ljós hvaða nafn verði fyrir valinu. 

WAB sótti um flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu í júní. Sveinn Ingi er er fyrrverandi yfirmaður hagdeildar WOW air og sat í framkvæmdastjórn félagsins. Auk Sveins Inga er Neo, félagið sem stendur að stofnun WAB, í eigu Arn­ars Más Magnús­son­ar, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra flugrekstr­ar­sviðs WOW air, Boga Guðmunds­son­ar, lög­manns hjá Atlantik Legal Serv­ic­es og stjórn­ar­for­manns BusTrav­el, og Þórodds Ara Þórodds­son­ar, ráðgjafa í flug­vélaviðskipt­um í Lund­ún­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka