Íslendingum bjargað úr sjónum við Hawaii

Fimm manns, þar af tveir Íslendingar, lentu í sjávarháska við …
Fimm manns, þar af tveir Íslendingar, lentu í sjávarháska við Rauðasandsströndina, vinsæla ferðamannaströnd við Kaihalulu-flóa í Hawaii á sunnudag. Ljósmynd/Wikipedia

Þremur var bjargað úr sjávarháska, þar af tveimur Íslendingum, skammt fyrir utan vinsæla strönd í bænum Hāna, á austurströnd Maui-eyju á Hawaii á sunnudaginn. Vísir greindi fyrst frá innlendra miðla. 

Staðarmiðlar greina frá því að tveimur Íslendingum, tíu ára dreng og fullorðnum karlmanni, hafi verið bjargað úr sjónum ásamt heimamanni. Drengurinn var fluttur á sjúkrahús í Maui þar sem hann fékk frekari aðhlynningu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hefur ekki verið leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna málsins. 

Tilkynning barst slökkviliði um klukkan tvö síðdegis á sunnudag um fimm manns í sjávarháska í grennd við Rauðasandsströndina, vinsæla ferðamannaströnd við Kaihalulu-flóa. Alls voru fimm manns í vandræðum í sjónum en þegar björgunarmenn komu á vettvang hafði tveimur tekist að komast í land en hina þrjá hafði rekið talsvert frá landi, um 150 til 200 metra. 

Slökkviliðsmennirnir syntu að mönnunum en sjóþotur voru einnig nýttar við björgunina. Þremenningarnir höfðu allir gleypt töluvert af vatni og voru tveir þeirra fluttir til Hāna en drengurinn á sjúkrahús í Maui, líkt og fyrr segir. 

Björgunaraðgerðirnar tóku alls um tvo klukkutíma. Viðvörun vegna mikillar ölduhæðar var í gildi en búist var við allt að þriggja metra háum öldum á sunnudaginn sökum áhrifa fellibylsins Flossie sem fór nærri Hawaii í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert