Ummæli líffræðings „algjört rugl“

Rannveig Grétarsdóttir.
Rannveig Grétarsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Talskona Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja segir ummæli líffræðings Hafrannsóknarstofnunar um að hvalaskoðunarskip gætu hafa ruglað hvalavöðu í ríminu með þeim afleiðingum að hún leitaði á land, vera algjöra firringu. 

„Við algjörlega vísum þessu frá okkur,“ segir Rannveig Grétarsdóttir eigandi og framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur og forsvarskona Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja. 

„Það er algjört rugl. Það er algjör vitleysa að við höfum eitthvað verið að trufla þessa hvali. Að sjálfsögðu hafa bátarnir verið að sitja nærri þeim en með þessa hvalavöðu til dæmis voru bátar í kringum þá 21. júlí og það er mjög ólíklegt að það leiði til þess að þeir strandi vikum síðar,“ segir Rannveig og vísar þar til hvalavöðu sem strandaði í Garðskagafjöru um helgina. 

Segir ummælin óábyrg

Í samtali við RÚV í gær sagði líffræðingur Hafrannsóknarstofnunar að líklegt væri að dýrin sem strönduðu á Görðum hefðu elt áttavilt forystudýr. Vaðan sé líklega sú sama og sést hafði í Faxaflóa þar sem sex hvalaskoðunarskip voru í kringum hana. Taldi hann líklegt að skipin gætu hafa truflað dýrin. 

Grindhvalavaða strandaði á Görðum um helgina.
Grindhvalavaða strandaði á Görðum um helgina. mbl.is/Alfons

„Ég er búin að tala við hvalasérfræðinga og þeir segja að þetta sé algjör firra og að engar rannsóknir sýni að það sé samhengi þarna á milli,“ segir Rannveig um þessa tilgátu. 

„Þeir hafa líklega verið að elta makrílinn þarna inn og þar var bara of grunnt. Það er ótrúlegt og bara mjög óábyrgt að starfsmaður Hafrannsóknastofnunar ætli að fara tengja hvalaskoðunarfyrirtæki við þetta og ég skil ekki hvað honum gengur til. Við höfum óskað eftir fundi með Hafró í dag. Vonandi munu þeir taka þessa fullyrðingu tilbaka.“

Hegðun báta í kringum hvali önnur umræða 

Þá segir Rannveig að hvalaskoðunarskip séu ekki ein á sjó og að furðulegt sé að þau ein séu talin hafa áhrif á vöðurnar. 

„Þetta er önnur vaðan sem kemur í sumar og hin strandaði upp á Löngufjöru og það er nú enginn í hvalaskoðun þar. Það er mjög langsótt að vera að kenna einhverjum nokkrum bátum á sjó um þetta, það eru allskonar bátar á sjó og mjög langsótt að kenna okkur um grindhvalahegðun. Það þekkist út um allan heim að þeir eru að stranda, líka þar sem er ekki hvalaskoðun eins og í Breiðafirði.“

Grindhvalir í Löngufjörum sem strönduðu í júlí.
Grindhvalir í Löngufjörum sem strönduðu í júlí.

Þá segir Rannveig að eðlilegt sé að hegðun báta í kringum hvali sé bætt. Það sé þó önnur umræða sem tengist ekki hvalavöðum sem strandi hér á landi. 

„Ég hélt fyrst að RÚV hefði bara eitthvað misskilið hann. En þetta skýrist þegar við fáum vonandi að hitta þá. Kannski var þetta mistúlkun á þessu, þeir hvalasérfræðingar sem ég hef talað við botna allavega ekkert í þessum ummælum.“ 

„Að sjálfsögðu er hegðun báta í kringum hvali annað mál og við erum alltaf til viðræðu um að bæta það. Við erum með skýrar reglur um hvernig bátar eigi að haga sér því við viljum að sjálfsögðu ekki vera til þess að hræða hvalina í burtu eða valda þeim tjóni. En að blanda þessu saman er náttúrulega algjör firra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert