Hlutfall erlendra starfsmanna af atvinnulausum hefur farið stöðugt vaxandi og er nú í kringum 35%.
Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, sem vitnar í nýjustu tölur Vinnumálastofnunar.
„Að ýmsu leyti má segja að útlendingar séu eins konar jaðarvinnuafl, þeir koma sterkt inn þegar mikið er til af lausum störfum og eru oft fyrstir út þegar störfum fækkar. Þátttaka útlendinga er hins vegar orðin svo mikil og langvarandi að stór hluti þeirra nær að vinna sér inn sama rétt á vinnumarkaði og innlendir starfsmenn, t.d. til atvinnuleysisbóta. Það kemur því ekki á óvart miðað við stöðu erlends starfsfólks á vinnumarkaði að töluverður hluti atvinnulausra sé af erlendu bergi brotinn," segir í Hagsjánni.
Skráð atvinnuleysi milli maí og júní, minnkaði úr 3,6% í 3,4. Skráð atvinnuleysi jókst nokkuð fyrstu mánuði ársins og fór hæst í maí þegar það mældist 3,7% og hefur síðan minnkað tvo mánuði í röð.
Atvinnuleysi jókst meira á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma en á landinu öllu, en minnkaði svo aftur allsstaðar í júní.
„Staðan var óneitanlega frekar dökk í lok mars þegar WOW air varð gjaldþrota. Nú lítur hins vegar út fyrir að mikil neikvæð áhrif á atvinnustig, sérstaklega í ferðaþjónustu og á Suðurnesjum, hafi ekki orðið eins mikil og langvarandi og óttast var í lok vetrar,“ segir í Hagsjánni.
Atvinnuleysi er enn mest á Suðurnesjum. Sé litið á meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða skera Suðurnes sig nokkuð úr, bæði hvað karla og konur varðar. Skráð atvinnuleysi kvenna hefur verið nokkuð meira á Suðurnesjum en hjá körlum. Atvinnuleysi hefur verið næst mest á höfuðborgarsvæðinu, í kringum 3% hjá báðum kynjum, og þar næst á Norðurlandi eystra, í kringum 2,5% hjá báðum kynjum.
Athygli vekur að atvinnuleysi hefur verið mun meira hjá konum en körlum á Austurlandi og Suðurlandi. Eins og verið hefur í langan tíma er atvinnuleysi minnst á Norðurlandi vestra.
Á síðustu árum hefur skráð atvinnuleysi kvenna jafnan verið meira en hjá körlum, en sá munur hefur minnkað mikið á síðustu mánuðum. Þannig munaði bara 0,1 prósentustigi á atvinnuleysi karla og kvenna í mars og nú í júní var atvinnuleysi karla 3,3% og 3,6% meðal kvenna.
Langtímaatvinnuleysi hefur minnkað stöðugt frá árunum 2012-2013 þegar það var mest. Á þeim tíma hafði allt að 40% atvinnulausra verið án vinnu í eitt ár eða lengur. Á síðustu mánuðum hefur innan við 20% atvinnulausra verið án vinnu í ár eða lengur. Töluverðar sveiflur eru í þessum hlutföllum innan ársins, en nú í júní höfðu að meðaltali 19% atvinnulausra verið án atvinnu í ár eða lengur á síðustu 12 mánuðum.