Um þúsund manns munu koma að stórtónleikum Ed Sheeran sem haldnir verða á Laugardalsvelli 10. og 11. ágúst en fjölmargir vinna nú að því að gera völlinn tilbúinn fyrir tónleikana. Nú er unnið að því að setja upp 650 fermetra svið sem búist er við að verði komið upp í kvöld en vinna að uppsetningu þess byrjaði í fyrradag. Þetta segir Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, sem sér um framkvæmd tónleikanna.
Segir hann að um 50 fermetrar séu á milli lengstu punkta sviðsins og að það vegi tvö tonn.
„Þetta er svið sem er notað fyrir 60 til 70 þúsund manna tónleika úti,“ segir Ísleifur í samtali við Morgunblaðið. „Við erum bara dolfallin sjálf yfir því hvað þetta er stórt og mikið umfang á þessu öllu saman,“ segir hann.
„Maður horfir hérna yfir völlinn og það er her manns hérna úti um allt að vinna og smíða,“ segir Ísleifur sem segir erlenda aðila á vegum Ed Sheeran vera að flykkjast til landsins til að undirbúa tónleikana. Hann segir að samtals komi um 150 erlendir aðilar að tónleikunum en býst við að um þúsund manns verði í vinnu á tónleikadegi. „Þetta er náttúrulega stærsta stjarna samtímans akkúrat núna þannig að það eru gerðar miklar kröfur varðandi allt,“ segir hann. Uppselt er á tónleikana 10. ágúst en Ísleifur segir að miðarnir á aukatónleikana 11. ágúst séu að rjúka út.