Bílaumboðið BL mun nú bjóða viðskiptavinum sínum bílafjármögnun sem er um helmingi ódýrari en hagstæðustu bílalán á markaðnum í dag. Viðskiptavinum stendur frá og með morgundeginum til boða að taka lán á föstum 3,95% óverðtryggðum vöxtum þegar keyptar eru bifreiðar frá umboðinu.
Að sögn Brynjars Elefsen Óskarssonar, framkvæmdastjóra sölusviðs, er verkefnið unnið í samstarfi við Lykil fjármögnun. „Til að byrja með verður þetta í boði fyrir alla nýja bíla hjá okkur. Þetta er afar skynsamleg og örugg fjármögnun, en lauslega á litið munar um 50% á okkar lánum og því sem best býðst á markaðnum. Þetta eru einnig vextir sem standa töluvert neðar en húsnæðislánavextir,“ segir Brynjar en til samanburðar má nefna að hagstæðustu föstu vextir óverðtryggðra húsnæðislána eru 5,14% og standa til boða hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Viðskiptavinir BL þurfa engin lántökugjöld að greiða þegar tekin eru lán vegna bifreiðakaupa hjá umboðinu. Þess utan er ekkert hámark á lánum til viðskiptavina, en lánstíminn fer þó eftir því hversu mikið eigið fé viðskiptavinurinn getur lagt fram. Mest verða veitt 90% lán og eru þau til þriggja ára. Eiginfjárkrafan eykst jafnt og þétt eftir því sem lánstíminn lengist, en lánin eru lengst veitt til sjö ára.
Brynjar segir að lánin séu komin til að vera þótt þau muni hugsanlega standa til boða á öðru formi í framtíðinni. „Það kunna að vera aðrar vaxtaprósentur og þess háttar. Mögulega verða lægri vextir síðar meir í einhverjum tilvikum. Þetta er allt í skoðun ,“ segir Brynjar í umfjöllun um lánakjör þessi í ViðskiptaMogganum í dag.