„Ég hrópaði bara: Guð minn góður!“

Dekk sprakk á flutningabíl á Sandskeiði á Suðurlandsvegi í dag …
Dekk sprakk á flutningabíl á Sandskeiði á Suðurlandsvegi í dag og hafnaði bíllinn á vegriði. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Betur fór en á horfðist þegar flutningabíll fór út af veginum við Sandskeið á Suðurlandsvegi á öðrum tímanum í dag. Karen Dagmar Guðmundsdóttir var á austurleið þegar hún sá dekk á vörubíl sem ók á veginum á móti henni „hvellspringa“ og stefna beint á bíl hennar. Eins árs gamall sonur Karenar var með í för. 

„Ég þakka Guði fyrir þetta vegrið, því ég efast um að ég og sonur minn værum til frásagnar núna ef ekki hefði verið fyrir það,“ segir Karen í samtali við mbl.is. 

Vörubíllinn hafnaði á vegriði á veginum og stöðvaðist. „Bíllinn kemur askvaðandi á móti okkur og lendir á vegriðinu og sem betur fer hélt það. Ég beið allan tímann eftir að hann myndi fara á hliðina. „Ég hrópaði bara: Guð minn góður!“,“ segir Karen. 

Vegriðið hélt flutningabílnum eftir að hann hafnaði á því. Bíllinn …
Vegriðið hélt flutningabílnum eftir að hann hafnaði á því. Bíllinn hefði annars að öllum líkindum endað á vegarhelmingi þar sem bílar komu úr gagnstæðri átt. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Lykilatriði að vegriðið hélt flutningabílnum

Hún brást við með því að keyra út í kant og hringja í neyðarlínuna. „Svo hljóp ég og athugaði hvort það væri ekki í lagi með bílstjórann.“ Svo reyndist vera og allt fór því vel að lokum. Lögreglan kom á vettvang skömmu síðar en þá var Karen lögð af stað aftur en ferðinni var heitið heim í Hveragerði. „Við komumst áfallalaust heim.“

Lítil umferð var á veginum þegar slysið átti sér stað og Karen segir að enginn bíll hafi verið við hliðina á vörubílnum og að langt hafi verið í næsta bíl fyrir aftan. Þá segir hún mestu máli skipta að vegriðið hafi haldið. „Þetta var fulllestaður vörubíll og hefði því getað endað mjög illa,“ segir Karen, en 200 til 300 metrum vestar en slysið átti sér stað endar vegriðið. 

Skiptar skoðanir eru um svokölluð víravegrið og hafa bif­hjóla­menn til að mynda haldið því fram að víra­vegrið séu stór­hættu­leg bif­hjóla­mönn­um.

„Ég var ein af þeim sem var á móti þessu en ég er það ekki í dag. Ég hugsaði einmitt þegar ég hélt áfram austur þar sem vegriðið liggur niðri: „Guði sé lof að þetta skeði ekki hér.“.“

Litlu mátti muna að flutningabíllinn hafnaði á fólksbíl sem kom …
Litlu mátti muna að flutningabíllinn hafnaði á fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka