Háskólinn í Reykjavík hefur verið sýknaður af kröfum Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við háskólann.
Dómsuppsaga var í málinu rétt í þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málskostnaður á milli aðila fellur niður. Dómari greindi frá því að dómsuppkvaðning hefði dregist fram yfir lögbundinn frest en að ekki hafi verið talin þörf á endurflutningi. Var háskólinn sýknaður af öllum dómkröfum Kristins.
Kristinn stefndi skólanum vegna uppsagnar hans í október í fyrra en ástæða hennar voru ummæli sem hann hafði uppi á netinu.
Hann krafði skólann um 66 mánaða laun, eða tæplega 57 milljónir króna, sem hann taldi sig eiga rétt á þar sem hann kenndi áður hjá Tækniskólanum í Reykjavík og var þar opinber starfsmaður.
Málið á rætur að rekja til ummæla Kristins á lokaðri Facebook-síðu sem nefnist Karlmennskuspjallið. Þar sagði hann m.a. konur troða sér inn á vinnustaði þar sem karlmann vinna. Þá sagði hann að konur eyðilegðu vinnustaðina því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“.
Við skýrslutöku þegar aðalmeðferð málsins fór fram í júní lýsti Ari Kristinn Jónsson rektor háskólans því að ummæli Kristins í hópnum Karlmennskuspjallið hefðu haft „veruleg áhrif á starfsmenn“. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, spurði Sigríði Elínu Guðlaugsdóttur, mannauðsstjóra háskólans, að því hvort hún hefði séð ummæli um hann sjálfan á Facebook-hópnum Karlar sem gera merkilega hluti.