Lögreglan á Austurlandi hefur verið í alþjóðlegri samvinnu við Europol vegna fíkniefnafundarins í Norrænu á dögunum.
Þetta staðfestir lögreglan við mbl.is en hún hefur einnig átt í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Ólíklegt er að nýjar upplýsingar um málið verði gefnar í þessari viku, að sögn lögreglunnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is fundust 45 kíló af hvítum efnum, amfetamíni og kókaíni, í bifreið. Ekki hafa fengist upplýsingar um það hversu mikið er af hvoru efni eða hversu hrein efnin eru. Þó hefur mbl.is fengið að heyra af því að aldrei hafi verið lagt hald á jafn verðmæta fíkniefnasendingu.
Mennirnir tveir, sem grunaðir eru um smyglið, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Austurlands á laugardag og fluttir til Reykjavíkur með flugi að kvöldi laugardags.