Kostnaður við lýðveldishátíð í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins á þjóðhátíðardaginn 17. júní sl. var 7.816.000 krónur, en að undirbúningi stóðu forsætisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Alþingi.
Að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins var leitað eftir tilboðum í alla verkþætti við undirbúninginn og framkvæmdina.
Hátíðardagskráin var sett á Austurvelli þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lagði blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp og fjallkonan Aldís Amah Hamilton, flutti ljóð eftir Bubba Morthens.
Að lokinni hátíðinni var haldinn þingfundur ungmenna sem sýnt var frá í beinni útsendingu á RÚV. Þar gafst ungu fólki tækifæri til að koma málefnum sem á því brenna á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar. Þá var boðið upp á 75 metra langa lýðveldisköku og lykilstofnanir í miðborginni voru með opið hús.
Enn eru fyrirhugaðir viðburðir í tilefni af lýðveldisafmælinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Menningu og vísindum verður gert hátt undir höfði og nefnd eru átaksverkefni um ritmenningu íslenskra miðalda, sinfóníutónleika helgaða íslenskri tónlst, stuðning við íslenskudeild Manitoba-háskóla í Kanada og átak til að efla og heiðra dansk-íslenskt vísindasamstarf.