Mike Pence til Íslands

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Mögulegt er að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sé á leið til landsins á næstu vikum. Mun hann þá funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra um viðskiptasamráð Íslands og Bandaríkjanna. 

„Undirbúningur hefur staðið nokkuð lengi en það er ekki endanlega staðfest að af þessari heimsókn verður og þar af leiðandi eru ekki komnar neinar dagsetningar,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

„Ég hef lagt á það mjög mikla áherslu að styrkja og efla tengslin við Bandaríkin frá því ég tók við sem ráðherra. Sá áhugi er gagnkvæmur af hálfu Bandaríkjamanna og mér hefur verið boðið af varnarmálaráðherra til Bandaríkjanna og sömuleiðis þegið boð Mike Pompeo utanríkisráðherra. Hann kom svo hingað og varð þá fyrsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ellefu ár til að koma til landsins,“ segir Guðlaugur Þór. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundi Pompeo og Guðlaugs hófst vinna að viðskiptasamráði ríkjanna, sem verður að öllum líkindum tilefni heimsóknar Pence. 

„Við ákváðum að hefja viðskiptasamráð og höfum unnið að því bæði hér í ráðuneytinu og svo sömuleiðis af hálfu Bandaríkjanna síðan það var ákveðið. Það er ástæðan fyrir því að Mike Pence sýnir því áhuga á að koma hingað. Það yrði þá bara innan nokkra vikna ef af þessu verður í þessari umferð.“

Ísland á mikið undir alþjóðlegum samskiptum

Aðspurður hvort að rætt verði um fyrirhugaða hernaðaruppbyggingu Bandaríkjahers við Keflavíkurflugvöll segir Guðlaugur það verða að koma í ljós síðar. 

„Á svona fundum kemur ýmislegt upp en markmiðið er fyrst og fremst að ræða þetta efnahagssamráð. Við höfum lagt mikla vinnu í það og erum vongóð um að það muni skila árangri.“

Guðlaugur segir það fagnaðarefni að erlendir leiðtogar sýni samráði við Ísland áhuga. 

„Við höfum lagt á það áherslu að fá hingað forystufólk frá öðrum ríkjum og þá sérstaklega þeim ríkjum sem við erum í mestum samskiptum við. Sem betur fer hafa menn áhuga á að koma hingað og eiga við okkur samskipti sem er mjög mikilvægt því við eigum mikið undir alþjóðlegum samskiptum.“

Mike Pompeo, utanríksráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór í Hörpu í …
Mike Pompeo, utanríksráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór í Hörpu í febrúar á þessu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka