„Hlýindin nú í sumar eru óvenjuleg suðvestanlands, en annars ekki. Hlýtt var um nær allt land 1939. Sumarið nú er frekar í ætt við norðaustanáttarsumur fyrri tíma – en þó áberandi hlýrra – líka í „kuldanum“ norðaustanlands.“
Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur aðspurður hvort sumarið 2019 líktist annáluðum góðviðrissumrum fyrri ára, eins og t.d. sumrinu 1939.
Þegar sumarið til þessa er metið frá sumardeginum fyrsta 25. apríl, fjórtán vikur, reynist tímabilið hið hlýjasta í Reykjavík. „Meðalhiti var 10,5 stig, næsthæstur var hann 10,3 stig 1941. Þá bar sumardaginn fyrsta upp á 24. apríl – þannig að árin keppa nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli hvað þetta varðar,“ segir Trausti í Morgunblaðinu í dag.