„Þessi söfnun hefur farið margfalt betur af stað en ég átti nokkurn tímann von á í upphafi. Minn boðskapur er afskaplega stuttur – ég er ekki að þessu til að klekkja á nokkrum manni. Ég er að þessu til þess að fá fram vilja sjálfstæðismanna og um leið einhverja vitræna niðurstöðu í þetta ömurlega mál sem er að eyðileggja flokkinn,“ segir Jón Kári Jónsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hann í máli sínu til undirskriftasöfnunar sem hafin er á meðal félagsmanna í Sjálfstæðisflokknum þar sem þess er krafist að fram fari atkvæðagreiðsla innan flokksins fyrir samþykkt eða synjun þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem ríkisstjórn Íslands vill innleiða. Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins er miðstjórn hans skylt að láta fara fram almenna kosningu meðal flokksmanna um tiltekin málefni berist um það skrifleg ósk frá minnst 5.000 flokksbundnum félögum, en þar af skulu ekki færri en 300 flokksmenn koma úr hverju kjördæmi landsins. Jón Kári vildi í gær ekki segja hversu margir hefðu þegar ritað nafn sitt á listann, enn væri verið að safna undirskriftum.
Þá segir Jón Kári mikla óeiningu ríkja í röðum sjálfstæðismanna vegna innleiðingar orkupakkans.
„Það er ljóst að í þessu máli er forysta flokksins einangruð. Auðvitað á hún einhverja meðreiðarsveina, en mér sýnist þeir vera mun færri,“ segir Jón Kári og bætir við að talað hafi verið um í upphafi sumars að nota skyldi sumarið til að ræða orkupakkamálið við almenna flokksmenn. „Það var aftur á móti ekkert rætt við okkur. Menn voru að vísu á einhverju landshornaflakki.“
Þá er vert að geta þess að búið er að boða til opins fundar í Valhöll klukkan 11 á morgun, laugardag, með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum mun formaður flokksins ræða stjórnmálaviðhorfið og sitja þingmenn síðan fyrir svörum, að því er fram kemur í fundarboði.
Spurður hvort hann hafi heyrt í forystu Sjálfstæðisflokksins frá því að undirskriftasöfnunin fór af stað kveður Jón Kári nei við. „Nei, enginn hefur látið heyra í sér þaðan. Ég hef hins vegar heyrt frá stórum hópi almennra sjálfstæðismanna og finn fyrir miklum stuðningi þaðan.“
Jón Kári segir marga flokksmenn upplifa afstöðu forystunnar sem svik. „Að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn inn í einhverja vegferð sem hann hefur aldrei verið á áður – að standa ekki í lappirnar þegar fullveldi þjóðarinnar er annars vegar. [...] Ég bara get ekki þolað að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn á þennan stað, það bara gengur engan veginn,“ segir hann.