„Í augnablikinu finnst mér þetta góð hugmynd en það gæti breyst á næstu dögum,“ segir Óskar Þór Guðmundsson, lögreglumaður og hjólreiðakappi, sem ætlar að hjóla yfir hálendið frá heimili sínu í Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur þar sem hann mun taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst. Hann hleypur og hjólar til styrktar Samhjálp.
Óskar ætlar að leggja af stað í ferðalagið á laugardaginn næstkomandi og áætlar að vera um tíu daga á leiðinni sem er um 620 kílómetra löng. Vonast hann til að ná að hjóla um 60 til 70 kílómetra á dag en segir að veðrið geti spilað inn í hvernig gengur.
„Það fer eftir veðrinu hvernig þetta fer með mig. Er ekki alltaf mótvindur þegar maður fer út að hjóla?“ segir Óskar og hlær.
„Ef þetta gengur vel fæ ég kannski einn eða tvo daga í pásu fyrir hlaupið en ef ég verð óheppinn með veður er spurning hvort ég næ þessu. En ég mun mæta í maraþonið hvernig sem ég fer að því,“ segir Óskar.
Hann segist hafa fengið hugmyndina að ferðalaginu í kringum síðustu áramót og að hann hafi síðan þá verið að æfa sig fyrir ferðina. Hann hafi til dæmis tekið þátt í „spinning“ og hjólað mikið.
„Sumir segja að ég sé dellukall. Ef mér finnst ég fá góða hugmynd þá framkvæmi ég hana,“ segir hann.
Óskar segist þekkja leiðina sem hann ætlar að hjóla ágætlega og kveðst hafa verið með ástríðu fyrir hálendisferðum frá barnæsku.
„Ég hef reyndar yfirleitt verið á bílnum þegar ég er að þvælast þarna en núna er það bara hjólið,“ segir hann.
Spurður um aðbúnað og gistingu á leiðinni segir Óskar að ferðin verði lúxusferðalag en eiginkona hans, Málfríður Ægisdóttir, mun fylgja honum eftir á jeppa þeirra hjóna sem er búinn þaktjaldi þar sem hann mun sofa.
„Ég þarf ekkert að vera að setja
tjaldið upp sjálfur. Það verður gert
fyrir mig,“ segir hann og hlær.
Aðspurður hvernig honum líði með ferðina segir Óskar: „Ég hlakka bara til og er ekkert stressaður yfir henni.“
Óskar hljóp einnig 10 kílómetra til styrktar Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra en hann segir samtökin hafa bjargað lífi dóttur hans sem var illa haldin af fíkniefnaneyslu og fór í meðferð hjá þeim fyrir um þremur árum.
„Mér rennur blóðið til skyldunnar fyrst ég er nú að brasa við þetta að leyfa þeim að njóta þess,“ segir Óskar sem kveðst bera hlýjan hug til starfseminnar.
„Ég tel að við séum ekkert að standa okkur neitt rosalega vel í því hér á Íslandi að veita fíklum og þeim sem eru í neyslu gott aðgengi að meðferðarúrræðum. Það vantar mikið upp á þar,“ segir Óskar og bætir við að fleiri hafi dáið úr neyslu en í bílslysum í fyrra. „Ég held að lykillinn að því að við förum að bæta okkur í þessum málaflokki sé að fólk sem er tilbúið til þess að fá hjálp hafi aðgengi að hjálpinni strax. Vegna þess að núna er staðan þannig að þú þarft jafnvel að bíða í nokkra mánuði þar til þú kemst í viðeigandi meðferð. Þá ertu ekki endilega tilbúinn eða jafnvel bara dáinn,“ segir hann.
Hægt er að styrkja málefnið á vefnum hlaupastyrkur.is.