Miðlunarlón Landsvirkjunar á hálendinu eru að fyllast um þessar mundir. Hálslón og Þórisvatn eru þegar orðin full og núna vantar um 70 sm á að Blöndulón fyllist.
Hálslón, sem sér Fljótsdalsvirkjun fyrir vatni í vetur, náði yfirfallshæð aðfararnótt sunnudagsins 5. ágúst sl. Þórisvatn, sem er miðlunarlón fyrir virkjanir á Þjórsársvæðinu, fór að renna á yfirfalli á miðvikudaginn.
Núna renna 180 m3/sek um yfirfall Hálslóns, og um 27 m3/sek um yfirfall Þórisvatns.
Fyrir ári fylltust öll lónin dagana 3. til 5. ágúst. Það var með því allra fyrsta sem gerist.
Þegar Hálslón fer á yfirfall myndast fagur foss, sem gefið var nafnið Hverfandi. Hann er við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum. Þaðan steypist vatnið 90-100 metra niður í Hafrahvammagljúfur. Fossinn er aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.
Við yfirfallið verður ekki lengur hægt að veiða lax í Jökulsá á Dal (Jöklu). Það kemur sér illa fyrir veiðileyfishafa og veiðimenn þegar Hálslón fer snemma á yfirfall.
Sömuleiðis verður laxveiði í Blöndu ekki möguleg þegar Blöndulón fer á yfirfall sem gerist væntanlega allra næstu daga. sisi@mbl.is