Um mánaðamótin síðustu hækkaði Air Iceland Connect verð á ýmissi aukaþjónustu. Í fésbókarhópnum Dýrt innanlandsflug: Þín upplifun er vakin athygli á því að gjald fyrir tösku hafi tvöfaldast, farið úr 1.600 krónum í 3.200 krónur.
Í samtali við Morgunblaðið um þessa verðhækkun segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect: „Við erum bara að endurskoða okkar verðlagningu eins og hefur verið gert með fargjöld almennt.“ Segir hann að breytingarnar hafi verið gerðar með það að augnamiði að rukka meira fyrir viðbótarþjónustu, í stað þess að hækka verð á grunnþjónustu, þ.e. fargjaldinu.
Segir hann að verð á fargjöldum hafi ekki markvisst verið lækkað í staðinn en segir aðspurður: „Í rauninni erum við að reyna að halda aftur af breytingum á fargjöldum, og bjóða lægri fargjöld almennt,“ og nefnir að í gær hafi sem dæmi verið til sölu fimm hundruð sæti á fimm þúsund krónur. Er þar um að ræða svokölluð létt fargjöld, en með þeim fylgir engin taska önnur en handfarangur sem má að hámarki vera 6 kílógrömm að þyngd. teitur@mbl.is