Nú fer hver að verða síðastur að koma sér inn á tónleika Ed Sheeran í Laugardal áður en listamaðurinn stígur á svið, en ráðgert er að það verði um klukkan níu. Enn bíður fjöldi fólks í röð sem nær út að Glæsibæ í töluverðri fjarlægð frá tónleikastaðnum.
Blaðakona mbl.is er í röðinni. Hún segist aldrei hafa kynnst viðlíka öngþveiti utan við tónleikastað, ekki einu sinni á 80 þúsund manna tónleikum erlendis. Engin örvænting hafi þó gripið um sig í röðinni, heldur sé fólk merkilega stillt og kátt.
Stríður straumur hefur verið inn og út af Ölveri, barnum í Glæsibæ og margir í röð með áfengi um hönd. Upphitun er löngu hafin. Tónlistarkonan Glowie reið á vaðið, en á eftir henni fylgdi sænska söngkonan Zara Larsson. Ekki ónýt upphitun þar.
Upp úr klukkan átta virðist sem létt hafi verið á öryggisleit og fólki nú hleypt inn sem rétt veifar miða að starfsmönnum. Hafi fólk verið rekið áfram inn á völlinn í því skyni að ná öllum inn á völl áður en poppstjarnan stígur á stokk. Eftir það skotgangi röðin.
Kristinn Magnússon, ljósmyndari mbl.is, þarf ekki að óttast að fara á mis við Sheeran. Hann er á Laugardalsvelli og hefur fangað stemninguna og listamennina á filmu.