Freysteinn Jóhannsson, fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, lést hinn 24. júlí síðastliðinn á Hrafnistu í Hafnarfirði, 73 ára að aldri, eftir erfið veikindi hin síðari ár. Útför Freysteins var gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær, í kyrrþey að hans ósk.
Freysteinn var fæddur í Siglufirði 25. júní 1946. Foreldrar hans voru Friðþóra Stefánsdóttir kennari og Jóhann Þorvaldsson skólastjóri. Þau eru bæði látin. Systkin hans eru Sigríður (látin), Þorvaldur, Stefanía og Indriði.
Freysteinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1966 og prófi frá Norska blaðamannaskólanum í Ósló 1970. Freysteinn var blaðamaður við Morgunblaðið 1967-1973 og 1977-2009. Hann var ritstjóri Alþýðublaðsins 1973-1975 og ritstjórnarfulltrúi Tímans 1975-1977. Hann var fréttastjóri á Morgunblaðinu 1981-2001.
Freysteinn var blaðafulltrúi heimsmeistaraeinvígisins í skák 1972. Þá var hann höfundur bókarinnar Fischer gegn Spassky – saga heimsmeistaraeinvígisins 1972, ásamt Friðriki Ólafssyni. Framan af starfsævinni fékkst Freysteinn fyrst og fremst við fréttaskrif og fréttastjórn. Seinni starfsárin sneri hann sér í meira mæli að því að taka viðtöl við fólk og er mörg eftirminnileg viðtöl Freysteins að finna á síðum Morgunblaðsins. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og sennilega er það ein meginástæðan fyrir því að ég fór út í blaðamennsku,“ sagði Freysteinn m.a. í bókinni Í hörðum slag, íslenskir blaðamenn II, sem út kom 2016.
Freysteinn var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Viktoría Kolfinna Ketilsdóttir, f. 1946. Þau skildu. Önnur kona hans var Sigríður Sólborg Eyjólfsdóttir, f. 1945, d. 1993. Sonur þeirra er Elmar, f. 1975, og stjúpdóttir Lára Jóhannsdóttir, f. 1964. Eftirlifandi eiginkona Freysteins er Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir hómópati, f. 1957. Börn hennar og stjúpbörn Freysteins eru Sjöfn Elísa, f. 1974, og Atli Þór, f. 1979, Albertsbörn.
Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Freysteini heilladrjúgt og gjöfult samstarf um áratuga skeið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Minningargreinar um Freystein eru á bls. 34-35 í blaðinu í dag.