Bíða 13 klukkutíma eftir Sheeran

Hugrún Ósk Brigisdóttir og Sjöfn Hulda Jónsdóttir eru tilbúnar til …
Hugrún Ósk Brigisdóttir og Sjöfn Hulda Jónsdóttir eru tilbúnar til þess að fórna miklum tíma fyrir Ed Sheeran. Heilum þrettán klukkutímum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Löng biðröð er nú fyrir utan Nýju Laugardagshöllina þar sem tónleikagestir sækja armbönd til þess að komast inn á tónleika Ed Sheerans í kvöld, auk þess sem sumir skemmta sér á aðdáendasvæðinu sem þar er. Á meðan margir sóttu armböndin og héldu heim á leið voru helstu aðdáendur Sheerans búnir að raða sér fyrir framan hliðið að tónleikasvæðinu.

Vinkonurnar Sjöfn Hulda Jónsdóttir og Hugrún Ósk Birgisdóttir úr Þingeyjarsýslu voru fyrstar við hliðið en þær mættu klukkan átta í morgun. Ber að hafa í huga að tónleikarnir byrja ekki fyrr en klukkan sex í kvöld og Sheeran sjálfur mætir ekki á svið fyrr en klukkan níu. Er því bið stúlknanna eftir Sheeran um þrettán klukkutímar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurðar hvort það væri þess virði að bíða í allan þennan tíma til þess að vera fyrstar inn svöruðu þær fljótt „já“ í kór. Þær sögðust jafnframt miklir aðdáendur tónlistarmannsins og að þetta væru ekki fyrstu tónleikar hans sem þær sækja. „Við fórum saman til London í fyrra.“

Vinkonurnar kváðust alls ekki þreyttar á biðinni. „Þetta er bara mjög gaman,“ sagði Sjöfn Hulda. Þær sögðu hópinn við hliðið vingjarnlegan og enga hættu á því að missa stöðuna í röðinni þótt skreppa þurfi á salernið. Þær eru sannfærðar um að tónleikarnir verði frábærir og að engin hætta sé á að þær verði fyrir vonbrigðum.

„Við vildum bara vera fyrstar,“ svarar Hugrún Ósk er blaðamaður spyr hvað hafi fengið þær til þess að vera mættar svona rosalega snemma. „Við viljum vera alveg fremst í miðjunni,“ bætir Sjöfn Hulda við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert