Leit við Þingvallavatn hefur verið hætt að sinni, en þar hefur manns verið leitað frá því á fjórða tímanum í dag eftir að mannlaus bátur fannst á vatninu.
Um sjötíu manns hafa komið að leitinni í dag, bæði á bátum og fótgangandi meðfram vatninu, og hafa einhverjir verið með leitarhunda sér við hlið. Bakpoki fannst við leitina í flæðarmáli vatnsins.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segist búast við að svipaður kraftur verði settur í leitina í fyrramálið þegar leit hefst aftur um klukkan níu.
Báturinn sem fannst er nú í vörslu lögreglunnar, en svo virðist sem um sé að ræða einhvers konar gúmkajak.