Hollywood bankaði upp á

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég segi frá The …
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég segi frá The Fence. Það eru nokkrir þekktir leikarar að lesa handritið,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Grímur Hákonarson sem mun gera kvikmynd í Bandaríkjunum. En fyrst ætlar hann að frumsýna hina alíslensku kvikmynd Héraðið. mbl.is/Ásdís

Það er vel við hæfi að hittast á kaffihúsi í Þjóðminjasafninu því eftir að hafa spjallað við kvikmyndagerðarmanninn Grím Hákonarson er ljóst að gömul íslensk gildi hafa tekið sér bólfestu í hans gömlu sál. Grímur fær sér tebolla og segir blaðamanni frá æskunni sem var full af sveitaævintýrum, uppreisnargjörnum og frjóum unglingsárunum og kvikmyndagerðarlistinni sem fann hann fljótt á lífsleiðinni.


Grímur virðist vera með báða fætur á jörðinni og er ekki að missa sig yfir velgengninni en eftir Hrúta hefur hann verið beðinn um að leikstýra kvikmynd í Bandaríkjunum eftir hans eigin handriti. Þessa dagana er honum efst í huga að kynna nýjustu mynd sína, Héraðið, sem frumsýnd verður í næstu viku. Síðar meir fer hún á kvikmyndahátíðir og verður sýnd í þrjátíu löndum en fyrst munu Íslendingar fá að berja hana augum.

Lífið í sveitinni

Bæði Hrútar og Héraðið segja sögur úr íslenskri sveit enda þekkir Grímur það umhverfi vel úr æsku. Pólitíkin var aldrei langt undan í sveitinni hans Gríms.
„Ég var í sveit í Vorsabæ öll sumur til sextán ára aldurs en mamma sendi mig líka á annan bæ til að koma mér út úr þægindarammanum hjá afa,“ segir hann og segist hafa gengið í flest sveitastörf.
„Ég byrjaði að keyra traktor átta ára gamall en þá voru engar reglur um slíkt. Ég var að reka kýr og kindur en ég fann það fljótt að ég var ekki mjög verklaginn. Enda er ég kvikmyndagerðarmaður í dag; ég fann það að ég var dálítið utan við mig og ekki mikið bóndaefni,“ segir hann.

Á tökustað skín einbeitingin af þeim Grími og framleiðandanum Grímari …
Á tökustað skín einbeitingin af þeim Grími og framleiðandanum Grímari Jónssyni, en myndin er tekin upp á Erpsstöðum í Dölum og á Hvammstanga snemma vors árið 2018. Ljósmynd/Margrét Seema Takyar

Pönkari með hanakamb

Við spólum aðeins til baka því blaðamaður vill heyra meira af æskunni og unglingsárum Gríms sem mótuðu hann sem persónu og kvikmyndagerðarmann. Sveitin setti sitt mark á unga manninn en það voru ekki síst unglingsárin sem mótuðu skoðanir hans í pólitík. Hann segist hafa breyst úr framsóknarmanni í sósíalista þegar hann hóf nám við Menntaskólann við Hamrahlíð.


„Ég frelsaðist þegar ég fór í MH og fór að lesa Marx. Ég man að arðránskenning Marx kveikti í mér; hvernig kapítalistinn arðrænir verkamanninn og var það mikil uppvakning. Ég varð aktívisti og var í pönkhljómsveit og samdi róttæka texta. Ég gekk um í leðurfrakka og var með hanakamb en hljómsveitin endaði alveg eins og alvörupönkhljómsveit endar oft; með slagsmálum á hljómsveitaræfingu,“ segir Grímur og brosir.

Af klósettbotni

Grímur segir að unglingsárin með tilheyrandi tilraunum á sviði kvikmyndalistarinnar hafi verið honum dýrmæt reynsla sem nýttist honum síðar meir í starfi. „Maður var að fikra sig áfram og gera tilraunir. Ég gerði eina stuttmynd í MH með Rúnari Rúnarssyni sem vakti athygli. Hún hét Klósettmenning og í henni var fylgst með fólki sem kom inn á salerni en myndin var tekin upp af klósettbotninum,“ segir hann og tekur fram að myndin hafi verið leikin.
„Myndin var valin inn á kvikmyndahátíð í Noregi. Við Rúnar fórum út til Bergen átján ára gamlir, langyngstu þátttakendurnir. Þessi mynd hjálpaði okkur mikið upp á sjálfstraustið,“ segir hann.


Þegar Grímur var búinn að hlaupa af sér hornin hér heima flutti hann til Prag. Þar nam hann fræðin í tvö ár í kvikmyndaskóla og segir það bestu ár lífs síns.
„Þarna kynntist ég straumum og stefnum í kvikmyndalist og mörgu fólki sem var að gera það sama og ég,“ segir hann.


„Þarna mótaði ég minn persónulega stíl sem ég hef fylgt síðan þá. Ég nota til dæmis myndmál mjög mikið en er ekki með mikið af samtölum. Ég nota líka ákveðinn tökustíl, handritastíl og leikstíl,“ segir Grímur sem skrifar alltaf sjálfur sín handrit.


Útskriftarverkefni Gríms úr kvikmyndaskólanum í Prag fjallaði, líkt og stuttmyndin í MH, um klósett en myndin heitir Slavek the Shit. Blaðamaður spyr í gríni hvort hann sé haldinn klósettblæti. „Það hefur stundum verið gert grín að því. Í Héraðinu er ein sena þar sem aðalpersónan Inga tekur fulla skóflu af kúaskít og hendir á bílrúðu aðstoðarkaupfélagsstjórans. Þannig að þetta er kannski höfundareinkenni,“ segir Grímur sposkur.

Opnaði allar dyr

Myndin Hrútar frá 2015 kom Grími á kortið sem kvikmyndagerðarmanni en sú mynd vann til Un Certain Regard-verðlaunanna á Kvikmyndahátíðinni í Cannes.
„Mér skilst að það séu stærstu kvikmyndaverðlaun sem íslensk mynd hefur fengið. Það gerði Hrúta að þeirri stóru mynd sem hún varð,“ segir Grímur sem segist alls ekki hafa búist við þessum verðlaunum.


„Við vorum bara fegnir að komast inn á Cannes en þetta kom mjög mikið á óvart. Bæði okkur og bransanum en ég var þarna alveg óþekktur leikstjóri. Ég man að þegar ég tók við verðlaununum af Isabellu Rosselini þá stífnaði ég upp. Það var engin Óskarsræða,“ segir hann og brosir.

Siggi Sigurjóns, Grímur Hákonarson og Theodór Júlíusson við frumsýningu Hrúta.
Siggi Sigurjóns, Grímur Hákonarson og Theodór Júlíusson við frumsýningu Hrúta. Styrmir Kári

„En þessi verðlaun breyttu lífi mínu og ekki bara mínu heldur margra annarra sem komu að Hrútum,“ segir Grímur en í kjölfarið var honum boðið um allan heim að kynna myndina. „Ég bjó í ferðatösku í eitt ár. Það var mikið ævintýri en ég fékk líka ógeð á ferðalögum.“
Fleira fylgdi frægðinni en Grímur er nú með umboðsmenn bæði í London og Los Angeles.


„Þetta opnaði allar dyr og ég fékk alls konar tilboð. Mörg fyrirtæki höfðu samband og vildu framleiða mynd eftir mig á ensku. Ég var ekki með neinar aðrar hugmyndir á þeim tíma en Héraðið sem átti að vera íslensk mynd, þannig að ég ákvað að kokka upp hugmynd fyrir mynd á ensku. Hún heitir The Fence og ég hef verið þrjú ár að þróa handritið með handritshöfundinum Shanes Danielsen. Hún gerist í Bandaríkjunum og segir sögu tveggja fjölskyldna sem búa hlið við hlið í úthverfi. Í öðru húsinu búa ung vinstrisinnuð hjón og í hinu eldri íhaldssöm hjón. Þessum fjölskyldum lendir saman þegar eldri hjónin taka upp á því að reisa gríðarstóra girðingu í kringum húsið sitt. Þessi mynd er um ástandið í Bandaríkjunum í dag; um óttann og pólariséringuna. Ég er núna að leita að amerískum leikurum en það er írskt fyrirtæki sem heitir Element Pictures sem framleiðir hana. Það fyrirtæki gerði meðal annars The Favourite og Room sem báðar voru tilnefndar til Óskarsverðlauna. Þetta fyrirtæki framleiðir listrænar kvikmyndir eins og ég hef verið að gera,“ segir Grímur sem er að vonum spenntur fyrir framhaldinu.


„Þarna eru fleiri kokkar í eldhúsinu en ég er vanur; hérna heima er ég minn eigin herra og fæ að ráða öllu sjálfur. Það eru listrænar málamiðlanir þarna. En þetta gæti orðið mín næsta mynd á eftir Héraðinu.“

Kálfurinn skírður Grímur

Kvenhetjan Inga er leikin af Arndísi Hrönn Egilsdóttur og segist Grímur hafa samið handritið með hana í huga.


„Ég hef lengi verið hrifinn af henni sem leikkonu, sérstaklega sem kvikmyndaleikkonu. Ég hef fylgst með henni lengi á sviði og mér finnst hún hafa þá eiginleika sem þarf til að verða trúverðug bóndakona. Ég var ekki með neinar prufur fyrir þetta hlutverk; ég ákvað strax að hún myndi leika Ingu,“ segir hann.


„Hún er 101-bóhem og hefur aldrei verið í sveit þannig að ég þurfti að pína hana aðeins; ég sendi hana á tvo bæi og svo hitti hún Heiðu fjalldalabónda og lærði af henni. Hún lagði mikið á sig fyrir hlutverkið.“

Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur Ingu í Héraðinu en Grímur skrifaði …
Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur Ingu í Héraðinu en Grímur skrifaði handritið með hana í huga.

Myndin er að mestu tekin upp á bóndabænum Erpsstöðum í Dölum þar sem er nútímakúabú og á Hvammstanga. Í Hrútum voru kindur í sviðsljósinu en í Héraðinu eru það kýrnar.
„Það er meiri fókus á dýr í Hrútum en í Héraðinu. En það var ein sena í Héraðinu sem var mjög erfið; kálfburður. Það þurfti að taka það „live“, eins og í heimildamynd. Við þurftum að taka það tvisvar sinnum. Fyrri kálfurinn sem fæddist var skírður Grímur og sá síðari Arndís. Þeir eru orðnir stórir í dag og ég vona að þeir fari ekki alveg strax í sláturhúsið,“ segir Grímur og brosir.

Smækkuð mynd af Íslandi

Hverju viltu miðla til fólks með þínum myndum?
„Ég er sósíalisti og hef samúð með lítilmagnanum. Myndirnar mínar fjalla yfirleitt um jaðarpersónur sem eru beittar óréttlæti eða ógnað af valdamiklu fólki. Eins og Inga í Héraðinu. Mér er líka umhugað um ákveðin gildi í samfélaginu og er gömul sál. Mér finnst nútímafólk oft ekki bera nægilega mikla virðingu fyrir því gamla. Eins og áður sagði þá hafa árekstrar gamalla íslenskra gilda við nútímasamfélagið eða kapítilsmann oft verið mér yrkisefni,“ segir hann og bætir við:


„En ég er enginn áróðursmaður og leyfi áhorfandanum að draga sínar eigin ályktanir. Í Héraðinu fær kaupfélagið gott pláss til að koma sínu sjónarmiði til skila. En þar sem Inga er aðalpersónan þá heldur maður alltaf með henni. Hún hefur ákveðna sýn og ákveðna pólitík og það má segja að sjónarhorn mitt sé í gegnum aðalpersónuna. Inga er hugsuð sem persónugervingur nýja Íslands sem var talað um eftir hrun en aldrei varð neitt úr. Hún er að berjast fyrir lýðræði, valddreifingu, frelsi. Hér er einokun á mörgum sviðum, klíkuskapur, þöggun og spilling. Héraðið er bara smækkuð mynd af Íslandi.“

Sena úr Héraðinu; Arndís Hrönn, sem leikur Ingu, og Siggi …
Sena úr Héraðinu; Arndís Hrönn, sem leikur Ingu, og Siggi Sigurjóns, sem leikur kaupfélagsstjórann Eyjólf, ræða málin við eldhúsborðið í myndinni Héraðinu sem frumsýnd er á miðvikudag.

Dreymdi ekki um Hollywood

Grímur hefur þegar selt Héraðið víða um heim og er hún að fara á kvikmyndahátíðir í haust. Hann mun þá leggjast í flakk en segist þó ætla að stilla því í hóf þar sem hann eignaðist frumburð sinn, dótturina Myrru Sigríði, í vor með sambýliskonu sinni Margréti Seema Takyar.
Eftir margra ára þrotlausa vinnu við kvikmyndagerð er loks svo komið að Grímur getur lifað af listinni.

Blaðamaður þurfti að ýta á hann að segja frá tækifærinu stóra sem bíður hans í Ameríku.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég segi frá The Fence. Það eru nokkrir þekktir leikarar að lesa handritið,“ segir Grímur dularfullur og segist ekki vilja nefna nein nöfn enn.


Ertu að fara að meika það í Hollywood?
„Tja, ég veit ekki. Það verða Hollywood-leikarar í myndinni að minnsta kosti, en þetta er evrópsk framleiðsla. Ég losna samt ekki við Hollywood-stimpilinn. Í fullri hreinskilni hefur það aldrei verið draumur hjá mér að komast til Hollywood. Ég er í grunninn evrópskur kvikmyndagerðarmaður en ég fékk þetta tækifæri upp í hendurnar. Ég ákvað að láta á það reyna.“

Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert