Fáir virðast ætla að nýta sér heimild til lundaveiða í Vestmannaeyjum í ár en heimilt er að veiða lunda frá 8. til 15. ágúst.
Þetta segir Georg Eiður Arnarson, einn reyndasti lundaveiðimaður Vestmannaeyja. Hann segir að þó að ábúð lunda hafi verið góð síðustu fjögur ár sjái hann hana ekki skila sér í fugli. Hann hvetur lundaveiðimenn til að sleppa því að nýta heimildina en sjálfur fór hann með nokkrum félagsmönnum á veiðar í Grímsey á Norðurlandi í ár.
Haraldur Geir Hlöðversson, einn félagsmanna í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja, tekur undir með Georg en hann segir þegjandi samkomulag ríkja meðal félagsmanna um að nýta ekki heimildina. Segir hann líklegt að einhverjir fari með börn sín út í Eyjar til að halda í hefðina en telur ólíklegt að þar verði mikið veitt.
Sjálfur ætlar Haraldur ekki á lundaveiðar í ár en hann segist hafa veitt nóg af lunda yfir ævina. „Þó að mér þyki lundi góður hef ég leyft honum að njóta vafans hvað þetta varðar,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.