Biðröðin er löng til að komast inn á aðdáendasvæði sem opnað var klukkan 12 í Nýju Laugardalshöllinni vegna tónleika Ed Sheeran á Laugardalsvelli í kvöld.
Biðröðin hefur lengst með hverri mínútunni. Nær hún næstum því að mynda hring í kringum höllina.
Hægt er að innrita sig á tónleikana áður en völlurinn opnar á aðdáendasvæðinu, auk þess sem ýmislegt verður um að vera á svæðinu.
Sjöfn Hulda Jónsdóttir og Hugrún Ósk Birgisdóttir voru fremstar í röðinni. Í samtali við ljósmyndara mbl.is sögðust þær hafa beðið í röðinni frá klukkan 8 í morgun en þær eru að vonum miklir aðdáendur tónlistarmannsins heimsfræga.
Uppselt er á tónleikana í kvöld og er von á um þrjátíu þúsund manns á Laugardalsvöll. Sheeran stígur á svið klukkan 21 en aðdáendasvæðið verður opið til klukkan eitt í nótt eða fram yfir tónleikana.
Borð og bekkir eru á svæðinu fyrir utan höllina þar sem fólk getur slappað af, skemmt sér og hitað upp saman fyrir tónleikana.
Síðari tónleikar Sheeran verða svo á Laugardalsvelli annað kvöld en ekki er enn uppselt á þá.