Áhyggjur af jarðakaupum erlendra aðila

Hjörleifshöfði er landareign sem hefur verið til sölu um nokkurt …
Hjörleifshöfði er landareign sem hefur verið til sölu um nokkurt skeið. mbl.is/Jónas Erlendsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti áhyggjum af landakaupum erlendra aðila á opnum fundi þingflokksins með flokksmönnum í gær. Erlendir fjárfestar hefðu lýst áhuga á að reisa stóra vindmyllugarða á Íslandi.

„Ég hef líka áhyggjur af því máli, en er líka meðvitaður um eignarréttinn,“ svaraði formaður flokksins inntur álits á jarðakaupum erlendra aðila. Nefndi hann að heimildir til jarðakaupa væru ekki gagnkvæmar er varðar ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og að ástæða væri til þess að skoða sérstaklega regluverk í því samhengi.

Sagði Bjarni fjársterka aðila „ásælast helstu hlunnindi jarðanna en kippa úr sambandi við sveitirnar og svo líður öll sveitin fyrir“. Bætti hann við að það hljóti að vera markmiðið að „nýta landið landsmönnum til heilla og ekki láta allan arðinn fara til útlanda. Við verðum að gæta okkar eigin hagsmuna.“

Jafnframt hafi verið reynt að „þrengja að þeim sem vilja skilja skuldir eftir á íslandi og færa hagnað [utan]“.

Vindmyllur við Búrfell.
Vindmyllur við Búrfell. Árni Sæberg

Finna fyrir áhuga fjárfesta á vindorkugörðum

Bjarni var einnig spurður út í orkumálin almennt, hvort stefnt væri að því að draga úr einokunarstöðu Landsvirkjunar og selja hluta starfsemi fyrirtækisins. Hann sagði engin áform vera um slíkt og spurði: „Í hag hverra væri það?“

Vék Bjarni þá að öðrum liðum sem hafa áhrif á markaðshlutdeild Landsvirkjunar og nefndi að fleiri aðilar væru að koma upp rafmagnsframleiðslu og virkjunum. „Við finnum fyrir áhuga stórra erlendra fjárfesta á að byggja stóra vindorkugarða með tugum eða hundruðum mastra. Sú umræða er á byrjunarstigi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert