Sveinn Rúnar Hauksson, berjaáhugamaður með meiru, segir enga ástæðu til að örvænta þótt kuldi sé í kortunum næstu daga. Berjabeygur sé óþarfur svo fremi sem það frysti ekki. Spáð er svölu veðri víða um land í vikunni og gæti hiti farið niður í fimm gráður norðan og vestan til. Sveinn segir að berjalyng hafi gott af smá vætu, sem gæti fylgt.
Sjálfur heldur hann í berjamó upp úr 20. ágúst og ver þá þremur vikum í tínsluna ásamt fjölskyldu. Hann gerir ráð fyrir að haæda vestur á firði eða í Fljót. „Maður reynir að fylla sem mest af frystikistunni með frosnum aðalbláberjum,“ segir Sveinn og bætir við að mest af þeim fari síðan í saft auk þess sem hann bætir nokkrum frosnum berjum út á hafragrautinn hvern morgun.
Sveinn er nú í Þórsmörk og segir að spretta þar sé góð. Hann er reyndar ekki í berjasöfnun þar og lét nægja að tína upp í sig krækiber en segir að hann hafi rekist á marga í berjamó. Hann viðurkennir að hann vaki yfir hverjum veðurfréttatíma á þessum árstíma. Það sé þó ekki af hinu góða enda áhyggjurnar tilgangslausar þar sem hann stjórnar jú ekki veðrinu. Berjasprettan er upp á almættið komin.