Maðurinn sem leitað er við Þingvallavatn er erlendur ferðamaður, rúmlega fertugur að aldri. Lögreglan var að vinna í því í gærkvöldi og í nótt að ná tengslum við aðstandendur hans og spyrja út í ferðir hans.
Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, við mbl.is
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að þegar lögreglan fór á vettvang í gær ásamt björgunarsveitum hafi fljótlega fundist eins manns kajak, uppblásinn, og með honum hafi flotið bakboki. Við nánari skoðun kom í ljós að eigandi hans er erlendur ferðamaður sem hafði gist á tjaldsvæðinu á Þingvöllum nóttina áður.
„Lögreglan vinnur nú í því að fá upplýsingar frá aðstandendum ferðamannsins varðandi ferðaáætlanir og plön og nýtur við það aðstoðar utanríkisþjónustu utanríkisráðuneytisins,“ segir í tilkynningunni.
Leit björgunarsveitarmanna að manninum, sem talinn er hafa dottið í vatnið úr bát, hófst við bakka Þingvallavatns upp úr klukkan níu í morgun og verður leitað meðfram vatninu. Þá eru sex hópar mættir á svæðið og nokkrir til viðbótar á leiðinni, segir Davíð Már Björnsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Davíð segir ekki vitað hvort þurfi meiri mannskap fyrr en líður á daginn, en búist er við að tugir muni koma að leitinni í dag. Þá sé nóg að gera hjá björgunarsveitunum þar sem þær eru einnig að annast gæslu vegna tónleika Eds Sheerans í Laugardal og sinna hálendisvakt.
Spurður hvort það gæti farið svo að það þyrfti að nýta mannskap úr Laugardal í leitina við Þingvallavatn svarar Davíð að svo sé ekki. „Þá myndum við kalla út sveitir sem eru lengra í burtu. Á því svæði erum við með um fjögur þúsund virka sjálfboðaliða.“