Skemmtiferðaskipið Nieuw Statendam hefur hætt við komu sína til Ísafjarðar á morgun vegna þess að von er á slæmu veðri. Um borð eru um þrjú þúsund farþegar sem fyrirhugað var að senda í land á Ísafirði með léttabátum.
Þar sem búist er við að vindur nái yfir 13-15 metrum á sekúndu hefur skipstjóri skipsins tekið þessa ákvörðun, að því er fram kemur á síðu Ísafjarðarhafnar.
Lokið var við smíði Nieuw Statendam í desember á síðasta ári en skipið er það nýjasta í röðum skipafélagsins Holland America Line.