Skipulaginu varðandi röðina á tónleika Ed Sheeran á Laugardalsvelli í gærkvöldi var breytt þegar ljóst var að röðin inn á standandi svæði var orðin of hæg og löng.
„Þegar allir voru sammála um breytingar sem hefðu ekki áhrif á öryggi gesta var ráðist í að framkvæma þær,“ segir í tilkynningu frá Senu Live.
Einnig olli það vandræðum að rafmagn fór af tímabundið á svæðinu þar sem innskönnun fór fram fyrir standandi svæðið. Fram kemur að það hafi tekist að leysa þessi vandamál og að röðin hafi verið búin um hálftíma áður en Sheeran steig á svið.
Í tilkynningunni segir einnig að skipulagið í kringum það hvernig hleypt er inn á svæðið sé er unnið í samráði við túrinn, öryggissérfræðinga, lögreglu og slökkvilið og í þeirri vinnu sé öryggi og velferð gesta ávallt sett í fyrsta sæti.
„Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þessi tímabundnu vandamál ollu en að öðru leyti fóru tónleikarnir vel fram og voru gestir til fyrirmyndar. Hið nýja skipulag við innhleypingar verður notað fyrir tónleikana í kvöld,“ segir í tilkynningunni.