„Þess virði? Ekki séns“

Sheeran virtist allavega skemmta sér.
Sheeran virtist allavega skemmta sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er óþolandi að heyra tals­menn Senu tala um að það hafi verið ein­hver mis­skiln­ing­ur hjá fólki sem varð til þess að all­ir fóru í snemm­inn­rit­un,“ seg­ir Sig­urður Hilm­ar Guðjóns­son, gest­ur á tón­leik­um Ed Sheer­an í Laug­ar­dal í gær. Sá mis­skiln­ing­ur skrif­ist al­farið á Senu.

Sig­urður var á tón­leik­un­um ásamt tveim­ur son­um sín­um og móður. Líkt og fjöl­marg­ir tón­leika­gest­ir fór hann í svo­kallaða snemm­inn­rit­un fyrr um dag­inn þar sem hann gat skipt papp­írsmiðunum út fyr­ir arm­bönd. Til að hún myndi ganga þurfti all­ur hóp­ur­inn að mæta og sýna miða og skil­ríki. Biðin í þá inn­rit­un tók tvær klukku­stund­ir en átti að ein­falda þeim lífið um kvöldið. 

Sig­urður seg­ist hafa bú­ist við að um kvöldið yrði þess vegna sér­stök röð þar sem snemm­inn­ritaðir fengju for­gang. „Ég hef verið mikið í ferðabrans­an­um og farið á tugi flug­valla. Ef maður fer í „ear­ly check-in“ þá slepp­ur maður við að tékka sig inn í flugið síðar og fer beint í ör­ygg­is­gæsl­una.“ Til þess sé leik­ur­inn gerður.

Í tölvupósti sem Sena sendi miðahöfum kemur skýrt fram að …
Í tölvu­pósti sem Sena sendi miðahöf­um kem­ur skýrt fram að snemm­inn­rit­un­in eigi að spara tón­leika­gest­um tíma og eru þeir hvatt­ir til að nýta sér þann kost. Ljós­mynd/​Aðsend

Eng­inn for­gang­ur var þó á vell­in­um fyr­ir snemm­inn­ritaða, sem fóru í sömu röð og aðrir en sluppu að vísu við að sýna skil­ríki. „Það skipt­ir mig engu máli hvort það tek­ur mig fimm sek­únd­ur eða tutt­ugu að kom­ast í gegn­um ör­ygg­is­leit­ina ef ég þarf hvort eð er að standa í sömu tveggja tíma röðinni,“ seg­ir Sig­urður.

Þess­ar raðir bæt­ast við biðröðina í Kringl­unni í síðustu viku þar sem Sig­urður varð að fara að ná í papp­írsmiðann.

Spurður út í ör­ygg­is­leit­ina seg­ir Sig­urður að hún hafi verið í skötu­líki. Örygg­is­vörður hafi ein­fald­lega spurt hann hvort hann hefði eitt­hvað í bak­poka sín­um og þegar Sig­urður svaraði neit­andi hafi vörður­inn hleypt hon­um í gegn. Kem­ur það heim og sam­an við framb­urð annarra gesta sem mbl.is hef­ur rætt við, sem segja að slakað hafi verið á ör­ygg­is­leit­inni í því skyni að flýta fyr­ir röðinni. Þessu hafnaði Ísleif­ur Þór­halls­son, fram­kvæmda­stjóri tón­leika­hald­ar­ans Senu Live, þó í sam­tali við mbl.is í dag.

Eng­inn mis­skiln­ing­ur

Þar sagði Ísleif­ur að mis­tök hefðu vissu­lega verið gerð við skipu­lagn­ingu tón­leik­anna. Svo hefði þó virst sem „út­breidd­ur mis­skiln­ing­ur“ væri uppi meðal miðahafa um að skylda hefði verið að fara í snemm­inn­rit­un eða ein­hver sér­stak­ur ábati af því, ann­ar en greint hefði verið frá.

Sig­urður seg­ist ekki telja að marg­ir hafi haldið það vera „skyldu“ að fara í snemm­inn­rit­un­ina. Hins veg­ar hafi það komið skýrt fram í tölvu­póst­um og skila­boðum á vett­vangi frá Senu að fólk væri hvatt til þess að snemm­inn­rita sig um dag­inn, og því hafi hann fylgt.

Sigurður var mættur í biðröðina, þá þriðju, um klukkan fimm …
Sig­urður var mætt­ur í biðröðina, þá þriðju, um klukk­an fimm og komst á völl­inn klukk­an sjö, í tæka tíð til að berja Zöru Lars­son aug­um. Það er þó eitt­hvað. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Stend­ur enda í tölvu­pósti frá Senu að snemm­inn­rit­un­in sé fyr­ir þá sem vilji spara sér tíma. Eft­ir stóð að Sig­urður beið í sömu tveggja tíma röð og all­ir aðrir, til viðbót­ar við álíka langa röð í snemm­inn­rit­un­ina fyrr um dag­inn.

En var biðin þess virði?

„Þess virði? Ekki séns. Ekki fyr­ir 65.000 krón­ur,“ seg­ir Sig­urður sem keypti, sem fyrr seg­ir, fjóra miða á tón­leik­ana. „Ég mun aldrei fara aft­ur á tón­leika hjá Senu.“

Hann seg­ist ekki vera sér­stak­ur Sheer­an-aðdá­andi, en hafi ákveðið að slá til og kaupa miða til að gleðja syni sína, sex og átta ára. Sá yngri sé sér­stak­ur aðdá­andi og þekki öll lög kapp­ans. Eft­ir biðina löngu voru dreng­irn­ir orðnir ansi lún­ir, og fór svo að þeir héldu af vell­in­um þegar Sheer­an flutti „síðasta“ lagið, áður en hann var klappaður upp og spilaði nokk­ur auka­lög. Þau hafi þeir heyrt útund­an sér frá bíla­stæðinu.

„Við vor­um bún­ir að bíða lengi í röð þris­var sinn­um, og vor­um ekki beint í stuði fyr­ir þá fjórðu á leiðinni út.“

Tónleikum lokið og mannhafið á leið út í nóttina.
Tón­leik­um lokið og mann­hafið á leið út í nótt­ina. mbl.is/Þ​or­steinn
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert