Framkalla norðurljós fyrir ferðamenn

Kúluhús Aurora Basecamp eru risin, en enn á eftir að …
Kúluhús Aurora Basecamp eru risin, en enn á eftir að klæða þau og klára að fullu. Ljósmynd/Kormákur Hermannsson

„Þetta gengur út á að leiðbeina fólki í norðurljósaleit, fyrst og fremst,“ segir Kormákur Hermannson, einn hvatamanna að Aurora Basecamp, nýrri norðurljósamiðstöð sem nú rís nærri gatnamótum Bláfjallavegar og Krísuvíkurvegar, í landi Hafnarfjarðar. Verkefnið er á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Basecamp Iceland.

Í norðurljósamiðstöðinni, sem er í gamalli hraunnámu sem Kormákur og fleiri hafa lagt mikla vinnu í að hreinsa að undanförnu, munu ferðamenn sem eru að leita uppi norðurljósin á eigin vegum og ferðaþjónustuaðilar með hópa geta komið við.

Þeim sem koma verður boðið upp á fræðslu um norðurljós og einnig upp á að sjá norðurljós í smættaðri mynd innandyra, í þar til gerðum glersúlum, en fyrirtækið hefur þróað aðferðina undanfarið ár. Á staðnum eru nú þegar risin þrjú stálgrindarkúluhús sem verða klædd með dúk um leið og veður leyfir, en vindur hefur hamlað því verki undanfarna daga. 

Stutt er síðan kúluhúsin voru reist, en þau eru þegar …
Stutt er síðan kúluhúsin voru reist, en þau eru þegar byrjuð að vekja athygli árvökulla vegfarenda. Kormákur og fleiri hafa lagt mikið í að hreinsa þessa gömlu hraunnámu ofan Hafnarfjarðar og segir hann að þar hafi eiginlega verið hálfgerður ruslahaugur. Ljósmynd/Kolbrún Ingólfsdóttir

Kormákur segir í samtali við mbl.is að svæðið sé einstaklega heppilegt til þess að fylgjast með norðurljósum, það sé utan við ljósmengunina frá borginni og þar séu aðstæður til norðurljósaáhorfs oft góðar. Með því að koma til þeirra, segir Kormákur, geti ferðamenn fengið skjól og fræðslu og komist á salerni í norðurljósaleit sinni.

„Norðurljós“ í sex glerhólkum

Ýmis fræðsla um virkni norðurljósanna verður í boði – og þar kemur norðurljósaframleiðslan inn í myndina. Hann segir að um sé að ræða sex glertúpur, ílanga glerhólka, sem framleiddir voru í Bandaríkjunum í samstarfi við fyrirtækið, sem hefur þegar sótt um einkaleyfi á þessu sköpunarverki.

„Við erum búin að vera að þróa þessa lausn, plasmatúpu sem við fyllum af gasi og lofttæmum svo til þess að líkja eftir þeim skilyrðum sem eru uppi í himinhvolfinu,“ segir Kormákur, en rafskaut eru inni í glersúlunum, sem eru um tíu sentímetrar í þvermál og 160 sentímetrar á lengd.

Blaðamaður hefur fengið að sjá stutt myndskeið af ljósadýrðinni sem verður til inni í glerhólkunum þegar þeir eru gangsettir og lítur það ansi spennandi út, litríkur rafstraumur liðast um inni í hylkinu, í svipuðum bylgjum og litatónum og alvöru norðurljósin gera á vetrarhimninum.

Kúlurnar þrjár hafa þegar risið, en Kormákur segir húsin gerð …
Kúlurnar þrjár hafa þegar risið, en Kormákur segir húsin gerð til þess að standast íslenskt veðurfar. Ljósmynd/Kormákur Hermannson

Kormákur segir að það séu um það bil tvö ár síðan fyrirtækið fór að huga að því að setja upp svona norðurljósamiðstöð, en sú hugmynd kom upp eftir að ljóst var að þeir ferðamenn sem áður keyptu norðurljósaferðir væru farnir að fara í auknum mæli í norðurljósaferðir á eigin bílaleigubíl.

„Við þekkjum ansi vel hvað það er sem fólk er að leita að – og fyrst og fremst er fólk að leita að því að vera ekki kalt og komast á klósettið og sjá norðurljós. Við teljum okkur uppfylla það að einhverju leyti hérna,“ segir Kormákur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert