Forsetinn stakk sér til sunds með „Marglyttum“

Guðni stígur úr hafinu með liðskonum Marglyttanna.
Guðni stígur úr hafinu með liðskonum Marglyttanna. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, stakk sér til sunds í gærkvöldi með Marglyttunum svonefndu, en það er hópur kvenna sem ætla að synda boðsund yfir Ermarsund í september og safna styrkjum og áheitum sem renna til Bláa hersins, umhverfisverndarsamtaka sem leggja áherslu á baráttu við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundarvakningu.

Forsetinn synti stutta vegalengd á móti Marglyttunum frá Bessastaðanesi og aftur í land. Konurnar lögðu af stað frá Ægisíðu og syntu yfir Skerjafjörðinn og á Bessastaðanes. Þeim fylgdu tveir kajakar og bátur frá björgunarsveitinni Ársæli.

Marglytturnar eru alls sex. Í hópnum eru Birna Bragadóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Sigurlaug María Jónsdóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir. Sem fyrr sagði stefna þær á að ná yfir Ermarsundið í sameiningu, en markmiðið með sundferðinni er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins. Ástand sjávar þar mun vera mjög slæmt, en Ermarsundið hefur verið kallað „Mount Everest sjósundfólks“. Leiðin er um 34 kílómetrar, milli borganna Dover í Englandi og Calais í Frakklandi. Flestir synda þó lengra þegar upp er staðið, jafnvel tvöfalt lengra, vegna strauma. Áætlaður sundtími er 16-18 klukkstundir og syndir hver og ein kvennanna eina klukkustund í einu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert