Landlæknir ætlar að athuga málið

Landlæknir hefur óskað eftir því að SÁÁ tilkynni embættinu um …
Landlæknir hefur óskað eftir því að SÁÁ tilkynni embættinu um málið með formlegum hætti og það hefur verið gert. mbl.is/Eggert

Embætti landlæknis ætlar að athuga mál sem varðar sjúkragögn SÁÁ, sem fyrrverandi starfsmaður samtakanna sagðist í síðasta mánuði hafa undir höndum.

Landlæknir hefur óskað eftir því að SÁÁ tilkynni embættinu um málið með formlegum hætti og það hefur verið gert, samkvæmt því sem segir í svari Kjartans Hreins Njálssonar aðstoðarmanns landlæknis við fyrirspurn mbl.is.

„Ef rétt reynist að óvarlega hafi verið farið með gögn úr sjúkraskrá þá er það augljóslega alvarlegt mál. Á þessum tímapunkti, og í ljósi þess að formleg athugun á málinu hefur ekki farið fram af hálfu embættis landlæknis, þá mun landlæknir ekki tjá sig frekar um málið,” segir einnig í svari embættisins.

SÁÁ veit ekki hvaða gögn þetta eru

Þeir Hjalti Björnsson fyrrverandi dagskrárstjóri hjá SÁÁ og Arnþór Jónsson, formaður samtakanna, tilkynntu málið báðir til Persónuverndar í síðasta mánuði.

Þá hafði Hjalti tjáð sig opinberlega um það á Facebook-síðu sinni að hann hefði fengið viðkvæm sjúkragögn um sjúklinga á meðferðarstöðinni Vík send frá SÁÁ ásamt öðrum gögnum sem hefðu verið flutt á heimili hans úr höfuðstöðvum SÁÁ.

Bæði Hjalti og Arnþór gerðu Persónuvernd viðvart um málið í …
Bæði Hjalti og Arnþór gerðu Persónuvernd viðvart um málið í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Arnþór sagði í samtali við blaðamann 23. júlí sl. að það væri ekki rétt að Hjalti hefði fengið gögnin send frá SÁÁ, heldur hlyti hann að hafa tekið þau með sér sjálfur er hann lauk störfum. Formaðurinn sagði að SÁÁ vissi ekki um hvaða gögn væri að ræða, sem Hjalti segðist vera með.

Í dag segist hann enn engu nær, þar sem gögnin hafa verið í vörslu Hjalta, en Arnþór segir að landlækni hafi verið gert viðvart um málið.

Hjalti skilar skýrslu til Persónuverndar

Persónuvernd hefur verið að afla upplýsinga um málið, en Hjalti sagðist hafa komið gögnunum fyrir í læstri skjalageymslu áður en hann hélt út á land í sumarfrí.

Hann kom heim í dag og segist aðspurður ekki enn hafa komið gögnunum í hendur Persónuverndar, en þegar blaðamaður hringdi til hans síðdegis sagðist hann vera að skrifa skýrslu til stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert