Skipa sér í tvær fylkingar

Orkupakkinn var m.a. ræddur í Valhöll á laugardag.
Orkupakkinn var m.a. ræddur í Valhöll á laugardag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðhorf formanna fulltrúaráða og hverfafélaga í Sjálfstæðisflokknum er á báða bóga með tilliti til þriðja orkupakkans. Forysta flokksins ræðir stjórnmálaviðhorfið á u.þ.b. fimmtán fundum með samflokksmönnum sínum á næstunni. Ætla má að orkupakkann beri helst á góma.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, er þeirrar skoðunar að best sé að þingflokkur og forysta staldri við og vísi málinu t.a.m. til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hann hefur ekki tekið þátt í undirskriftasöfnun sem nú fer fram þar sem það er lagt til.

„Það þarf ofboðslega margar undirskriftir til að þetta náist. Hvað sem því líður, jafnvel þótt ekki náist tilskilinn fjöldi, þá finnst mér núna vera komin sú staða að menn hljóti að vilja stoppa og hlusta, en ekki loka augunum og böðlast áfram,“ segir Elliði sem veltir fyrir sér „flokkslegum hagsmunum“ í þessu samhengi. „Ég hef trú á því að forystan sjái málið þessum sömu augum og láti ekki reyna á þetta. Afstaða mín í þessu máli er hvergi til marks um að ég treysti ekki forystunni. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað undir er trú mín á því að menn staldri við og bregðist við stöðunni,“ segir Elliði sem telur málið bera það með sér að enginn tali fyrir því af einlægni. „Ég leyfi mér að efast um að einn einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði flutt þetta mál ef ekki væri fyrir tilskipun EES. Það sýnir hvers eðlis málið er.“

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árborg, skiptar skoðanir á málinu þar „eins og annars staðar“. Hilmar Gunnlaugsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna á Fljótsdalshéraði, kveðst ekki vera í stöðu til að tala fyrir alla sjálfstæðismenn þar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert