„Þetta er alvarleg staða og það þarf enginn að fara í grafgötur með að það er tími til aðgerða. Þetta er eitthvað sem á ekki að líðast og við eigum að geta upprætt þetta,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um nýja skýrslu samtakanna um brotastarfsemi á vinnumarkaði.
Þar kemur fram að launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári. Mest er brotið á erlendu launafólki. Meira en helmingur krafna stéttarfélaga er gerður fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna, þrátt fyrir að þeir telji aðeins um 19 prósent launafólks á Íslandi.
„Þetta staðfestir það sem við höfum verið með tilfinningu fyrir, bæði varðandi að þessi brot eru sannarlega til staðar og að við vitum líka að það er ákveðin ný stéttaskipting á vinnumarkaði og viðkvæmustu hóparnir verða frekar fyrir brotum og launaþjófnaði,“ segir Drífa og á þar við fólk af erlendum uppruna og yngra fólk sem er í laust beisluðum ráðningarsamböndum.
„Þetta hvetur okkur áfram í að vinna gegn þessu því að við erum lítið og einsleitt land með skýr landamæri. Við eigum að hafa alla burði til að taka miklu betur á þessu en við höfum gert.“
Aðspurð segir hún tölurnar í skýrslunni varðandi launaþjófnað og kjarasamningsbrot svipað háar og búast mátti við. Hún bendir á að svokallaðar skuggatölur séu einnig mjög háar, því í skýrslunni sé aðeins greint frá kröfubréfunum sem eru send. Yfirleitt séu fyrstu viðbrögð stéttarfélaga að reyna að semja og fá atvinnuveitendur til að leiðrétta án þess að komi til þess að senda kröfur.
„Allar þær tölur vantar inn í þetta og það, sem betur fer, tekst mjög oft. Síðan er skuggamarkaður hérna líka og ég hef persónulega haft margar spurnir af því og hef miklar áhyggjur af því að fólk sem er ekki með kennitölur á Íslandi, hælisleitendur, flóttafólk og fleiri eru að reyna að drýgja tekjurnar og atvinnuveitendur eru að nýta sér það. Þetta er fólk sem er í viðkvæmustu hugsanlegu stöðunni sem vinnuafl og vinnur svart eða jafnvel ólaunað,“ greinir hún frá.
Drífa segir skýrsluna einnig staðfesta það sem ASÍ hefur áður sagt um að mest þurfi að hafa áhyggjur af ferðaþjónustunni og byggingariðnaðinum.
Spurð um samanburð við nágrannalöndin segir hún vinnumarkaðinn á Íslandi öðruvísi. Stéttarfélagsaðild sé mun minni í nágrannalöndunum og stéttarfélögin þar sinni ekki fólki sem er ekki með skilgreinda stéttarfélagsaðild. „Eitt af því sem gerir okkur betur í stakk búin að taka á þessum málum og ná yfirsýn er sterk verkalýðshreyfing. Við þessa rannsókn í rannsóknardeildinni og hagdeildinni voru skoðaðar svipaðar rannsóknir og það var ekki um auðugan garð að gresja. Ég hugsa að við séum framarlega í þessu.“
Hvernig er hægt að bæta stöðu mála hér á landi?
„Það þarf að fara mjög hressilega í þessi loforð sem stjórnvöld gáfu í tengslum við kjarasamningana. Þar höfum við lagt rosalega áherslu á að það varði sektum að brjóta á launafólki, þannig að það mun enginn ríða feitum hesti frá því að svindla á launafólki. Síðan þarf að samræma og efla eftirlitið mjög mikið.“
Drífa segir að „ofboðslega margar“ stofnanir fari með eftirlitshlutverk á vinnumarkaði ásamt ASÍ en verkalýðshreyfingin sinni því einna best. Þangað komi fólk til að fá úrlausn sinna mála. Gera þurfi miklu betur í að samræma verklag opinberra stofnana.