Leit að belgískum ferðamanni á fimmtugsaldri sem líklegast féll í Þingvallavatn er hafin á nýjan leik eftir leitarhlé frá því á sunnudag, að sögn Sveins Kr. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. Bróðir mannsins er kominn til landsins og segir Sveinn aðspurður að bróðirinn sé í miklu áfalli. Lögreglan sé í mjög góðu sambandi við hann.
Kafarar á vegum sérsveitar ríkislögreglustjóra munu vonandi geta kafað í Þingvallavatni á morgun en það hefur ekki verið hægt hingað til vegna aðstæðna í vatninu. „Þetta er svolítið sérstök leit upp á það að það er ekki vitað nákvæmlega hvar maðurinn fer ofan í og vatnið er náttúrulega 85 ferkílómetrar. Leitarsvæðið er þannig að það að senda kafara út er eins og að opna gluggann bara og kíkja út,“ segir Sveinn.
„Ef við hefðum einhvern nákvæman punkt þar sem hann sást síðast þá hefðum við sent kafara þangað. En hann höfum við ekki. Í sjálfu sér er allt Þingvallavatn undir.“
Hingað til hefur verið leitað út frá því að maðurinn gæti hafa flotið upp með botnstraumi. Sú leit hefur þó ekki borið árangur en bátur og bakpoki mannsins ráku upp syðst í Þingvallavatni, við Villingavatn.
Spurður hvort líklegt sé að maðurinn finnist segir Sveinn: „Við erum alltaf vongóð en maður veit svo sem aldrei, við höfum enga fullvissu um það.“
Aðstæður til leitar eru ákjósanlegri í dag en síðustu daga. Segir lögregla „yfirgnæfandi líkur“ á að maðurinn hafi fallið útbyrðis, en strekkingsvindur hefur verið á svæðinu og aðstæður til siglinga ekki verið góðar.
Að sögn belgískra fjölmiðla er maðurinn hinn 41 árs gamli Bjorn Debecker, verkfræðingur og tveggja barna faðir.