Eigandi og læða saman í fæðingarorlofi

Ísold í makindum sínum með kettlingana sjö.
Ísold í makindum sínum með kettlingana sjö. Ljósmynd/Berglind Ellý Reynisdóttir

Á heimili í Keflavík hefur íbúum fjölgað um hvorki meira né minna en átta einstaklinga á nokkrum mánuðum. Mesta fjölgunin varð þegar innikötturinn Ísold fannst eftir að hafa verið týnd í tæpa fjóra mánuði. Þá hafði hún dvalið undir palli í nágrenni heimilis síns um tíma en fylgdi henni óvæntur glaðningur þegar hún loks sneri heim, sjö nýfæddir kettlingar. Eigandi Ísoldar, Berglind Ellý Reynisdóttir, eignaðist sjálf barn fyrir þremur mánuðum síðan.

„Ísold hvarf úr götunni hjá okkur þrettánda mars. Við vorum búin að leita að henni út um allt í hverfinu en sáum hana hvergi. Hún er inniköttur og hefur í raun lítið farið út,“ segir Berglind. Þegar Ísold týndist var Berglind komin átta mánuði á leið. 

Saman í fæðingarorlofi

„Svo þriðja júlí fékk ég skilaboð frá konu í gegnum kattasíðu. Þá hafði Ísold fundist undir palli hérna í næstu götu með sjö nýfædda kettlinga. Einn kettlingurinn fannst fyrir utan pallinn og stelpan sem fann kettlinginn var hissa á því að þarna væri bara einn kettlingur þarna svo hún skreið undir pallinn og fann hana þarna með sex kettlinga í viðbót,“ segir Berglind. 

Móðirin virðist mjög stolt af afkvæmum sínum sem hún dvaldi …
Móðirin virðist mjög stolt af afkvæmum sínum sem hún dvaldi með undir palli nágrannans. Ljósmynd/Berglind Ellý Reynisdóttir

Kettlingunum og móður þeirra heilsast vel og er tímasetningin með eindæmum ágæt. „Við erum eiginlega saman í fæðingarorlofi,“ segir Berglind og hlær. 

Fjórir mánuðir eru langur tími fyrir týndan kött sem er nýorðinn árs gamall. „Ég var búin að gefa upp vonina um að við myndum nokkurn tímann finna hana á lífi. En það er mjög gaman að hún skyldi koma heim með þennan glaðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka