Klippti á borða í Berufirði

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, við formlega opnun hringvegarins við Berufjörð …
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, við formlega opnun hringvegarins við Berufjörð í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippti á borða og naut góðrar aðstoðar. Ljósmynd/Aðsend

Hringvegurinn um Berufjörð á Austurlandi var opnaður formlega í dag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippti á borða. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, var einnig viðstödd opnunina. 

Athöfnin fór fram við nýja brú í Berufirði en malbikun vegarins lauk 31. júlí.

Að athöfninni lokinni átti að halda athöfn á Havarí á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd og einnig afhjúpa skjöld sem verður settur upp í tilefni þess að hringvegurinn hefur loks verið malbikaður alla leið. Þar með lýkur verkefni sem hófst fyrir fjörutíu árum, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Nýr kafli hringvegar um Berufjarðarbotn er 4,9 km langur, þar af liggur um 1 km yfir sjó og um leirur. Vegurinn er 8 metra breiður með bundnu slitlagi. Ný brú í Berufjarðarbotni er steinsteypt, 50 m löng og 10 m breið. Nýjar vegtengingar að bæjum á Hvannbrekku og Berufirði eru samtals 1,6 km langar.

Hringvegurinn um Berufjörð.
Hringvegurinn um Berufjörð. Ljósmynd/Vegagerðin

Undirbúningur verksins hófst um árið 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði nokkuð undirbúningi verksins en verkið var boðið út í maí 2017. Lægsta tilboðið var frá Héraðsverki ehf. og MVA ehf. á Egilsstöðum. Framkvæmdir hófust 2017 og þeim átti að ljúka haustið 2018, en vegna veikra laga í sjó og þeirra viðbótarfyllinga sem þar urðu, náðist ekki að ljúka því fyrr en nú í sumar.

Nýi kaflinn um Berufjarðarbotn styttir hringveginn um 3,6 km og er lokaáfangi í að koma bundnu slitlagi á hringveginn um landið, samtals 1.322 km. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert