Mælir með göngum undir Fjarðarheiði

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Með hliðsjón af ávinningi samfélags og atvinnulífs á Seyðisfirði og Austurlandi í heild er vænlegast að rjúfa einangrun bæjarins með jarðgöngum undir Fjarðarheiði og styrkja enn fremur samfélagið á Austurlandi öllu með tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar annars vegar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar hins vegar á síðari stigum.

Þetta er niðurstaða skýrslu verkefnishóps sem skipaður var af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þar segir að slík hringtenging myndi færa samfélaginu á Austurlandi miklar samgöngubætur. Göng undir Fjarðarheiði yrðu lengstu göng Íslands, eða 13,4 km. Nákvæm kostnaðargreining hefur ekki verið unnin en verkefnishópurinn áætlar að kostnaður gæti numið um 33-34 milljörðum króna.

Heildarkostnaður 64 milljarðar króna

„Heildarkostnaður við hringtengingu með göngum undir Fjarðarheiði og síðar yfir í Mjóafjörð og Norðfjörð er áætlaður um 64 milljarðar kr. Samanlögð lengd þriggja ganga í hringtengingu er 25,7 km. Vegir utan ganga yrðu samtals um 6-8 km. Með því væri hægt að fara láglendisveg alla leið til Egilsstaða í stað leiðarinnar um Fagradal auk þess sem vegalendir styttast fyrir byggðir á fjörðunum,“ segir í fréttatilkynningu.

Verkefnishópurinn telur veggjöld vera fýsilegan kost en íbúar hafi lýst sig reiðubúna að greiða slík gjöld. Hópurinn telur tekjur af veggjaldi geta staðið undir rekstri og viðhaldi ganganna en myndu skila litlu sem engu í stofnkostnað. Sigurður Ingi kynnti skýrsluna fyrir sveitarstjórnarfólki á Austurlandi í morgun og mun síðan kynna hana á opnum íbúafundi á Hótel Héraði á Egilsstöðum klukkan 18:00 í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert