„Svartir sauðir" brjóta gegn samfélaginu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Hanna

Mikilvægt er að þau fyrirtæki sem brjóta gegn starfsmönnum á vinnumarkaði komist ekki upp með það. Með því að standa ekki við kjarasamninga brjóta þau ekki bara gegn sínu starfsfólki heldur á samfélaginu í heild og öðrum atvinnurekendum með því að skekkja samkeppnisstöðuna.

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og bætir við að því miður séu „svartir sauðir“ innan um eins og staðfest var með skýrslu ASÍ sem var birt í gær.

Þar kom fram að launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári. Mest er brotið á erlendu launafólki.

Halldór Benjamín fagnar því að verið sé að rannsaka stöðuna á íslenskum vinnumarkaði. Það sé mikilvægt til að átta sig betur á því við hverju þarf að bregðast.

„Samtök atvinnulífsins standa fyrir ábyrgu atvinnulífi og ég hef alltaf sagt að SA og verkalýðshreyfingin eru samherjar þegar kemur að því að byggja upp gott starfsumhverfi fyrir fólk á íslenskum vinnumarkaði og laun séu greidd samkvæmt kjarasamningum. Við erum að semja um það við samningaborðið og samningar skulu standa,“ segir hann.

„Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa unnið saman við að finna leiðir til að berjast gegn þeirri takmörkuðu brotastarfsemi sem er á vinnumarkaði. Ég lýsi SA reiðubúin til að halda áfram á þeirri vegferð enda er það allra hagur.“

Töluvert hefur verið um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.
Töluvert hefur verið um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjarasamningar verði einfaldari 

Halldór segir það sem kom fram í skýrslu ASÍ ekki hafa komið sér á óvart miðað við þann fjölda mála sem kemur inn á borð SA. Hann nefnir að sjaldnast sé ein skýring að baki og málin séu oft flókin. Í sumum tilvikum séu brot á ákvæðum kjarasamninga vegna mistaka og jafnvel misskilnings um rétta framkvæmd, enda séu kjarasamningarnir margir hverjir umfangsmiklir og mjög flóknir.

„Það er verðugt langtímaverkefni fyrir SA og viðsemjendur þeirra að einfalda kjarasamningsgerð, þ.e. að kjarasamningar séu einfaldari til túlkunar, vegna þess að það myndi draga úr vafaatriðum til framtíðar. Það er ein skýring. Síðan eru fjölmargar aðrar og sumt hrein og bein brotastarfsemi sem við að sjálfsögðu fordæmum af fullum þunga,“ greinir hann frá.

Aðspurður segir hann ástandið á íslenskum vinnumarkaði á heildina litið mjög gott og yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja standi sína plikt og vel það. „En það er misjafn sauður í mörgu fé og langtímaverkefni er að fækka þeim. Betur má ef duga skal,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert