Þriðjungur atvinnulausra erlendur

Atvinnulausum fjölgaði í flestum starfsgreinum í október.
Atvinnulausum fjölgaði í flestum starfsgreinum í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í júlí mældist atvinnuleysi 3,4% og voru 6.831 á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar, að því er fram kemur í yfirliti stofnunarinnar um vinnumarkaðinn á Íslandi. Þá voru 108 fleiri á atvinnuleysisskrá í júlí en í júní, en það er ekki nægilegur fjöldi til þess að hafa áhrif á hlutfallið.

Þá segir í yfirlitinu að gera megi „ráð fyrir að skráð atvinnuleysi verði svipað eða aukist lítils háttar í ágúst frá júlí eða á bilinu 3,4% til 3,6%“.

Fram kemur að erlendir ríkisborgarar án atvinnu voru 2.571 í júlí eða 35% allra á atvinnuleysisskrá. Þetta jafngildir 7,3% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði.

Þá skiptist atvinnuleysi nokkuð jafnt milli kynja. Alls voru 3.614 karlar atvinnulausir í júlí eða 52,9% allra og 3.217 konur eða 47,1%. Hins vegar snýst staðan við ef litið er til þeirra sem eru á vinnumarkaði og var atvinnuleysi meðal karla 3,3% og 3,7% meðal kvenna.

968 hjá starfsmannaleigum

Alls fóru 659 einstaklingar af skrá í júlímánuði, þar af fóru 333 í vinnu eða um 51%. Jafnframt tóku 435 þátt í úrræðum eða starfsþjálfunarverkefnum.

Vinnumálastofnun gaf út 241 atvinnuleyfi til útlendinga í júlí, þar af voru 104 ný en 137 voru til endurnýjunar. Jafnframt kemur fram að 37  erlend þjónustufyrirtæki séu skráð með starfsemi á Íslandi hjá Vinnumálastofnun og hafa þau 238 starfsmenn.

Í júlí voru 24 innlendar og erlendar starfsmannaleigur með 968 starfsmenn á Íslandi.

Staðan á Keflavíkurflugvelli þegar WOW air fór í þrot.
Staðan á Keflavíkurflugvelli þegar WOW air fór í þrot. mbl.is/​Hari

Mest á Suðurnesjum

Atvinnuleysi mældist mest á Suðurnesjum, 6,3% í júlí sem er aukning frá júní þegar það mældist 5,9% og atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 3,7% í síðasta mánuði en 3,8% í júní.

Mun minna var um atvinnuleysi á landsbyggðinni. Á Norðurlandi eystra var það mest eða 2,7% sem er örlítil hækkun frá júní þegar atvinnuleysi þar mældist 2,6%. Annars staðar a landinu mældist atvinnuleysi innan við 2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert