Aðstoðarmaður Dags kostar 20 milljónir

Laun aðstoðarmanns borgarstjóra taka mið af launum aðstoðarmanns forsætisráðherra, samkvæmt …
Laun aðstoðarmanns borgarstjóra taka mið af launum aðstoðarmanns forsætisráðherra, samkvæmt svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. mbl.is/​Hari

Kostnaður Reykjavíkurborgar við að halda úti stöðu aðstoðarmanns borgarstjóra, sem starfar sem pólitískur ráðgjafi borgarstjóra og sinnir ýmsum verkefnum fyrir hans hönd, voru rúmar 20 milljónir króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði, sem lagt var fram á fundi borgarráðs í dag.

Fram kemur í svarinu að heildarkostnaður borgarinnar við launagreiðslur til aðstoðarmanns borgarstjóra, Péturs Krogh Ólafssonar, hafi verið rúmar 19,3 milljónir króna árið 2018, en þá er verið að leggja saman heildarlaun og launatengd gjöld. Við það bætast svo 712.000 kr. í ferðakostnað. Í svarinu segir að laun aðstoðarmannsins taki mið af launum aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Ekkert persónulegt

Kolbrún Baldursdóttir lét bóka í fundargerð borgarráðs að spyrja mætti hvort þetta starf sé nauðsynlegt og spyr hvort borgarstjóri sjálfur sé ekki „fullfær um að annast mörg af þessum verkefnum sjálfur eða fela skrifstofu borgarstjóra eitthvað af þessum verkefnum en þar starfa fjöldi sérfræðinga.“

Hún sagði að hér væri ekki „um neitt persónulegt að ræða að sjálfsögðu“ og sagðist vonast til þess að borgarstjóri og aðstoðarmaður hans myndu taka ábendingunni vel.

Meirihlutinn segir fulla þörf á stöðunni

Borgarráðsfulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans lögðu fram bókun um að „full þörf“ væri á því að borgarstjóri hefði aðstoðarmann, en embættið hefur verið til síðan árið 1994.

„Frekar ætti að vekja máls á þvi að borgarstjóri sé áfram með einn aðstoðarmann á meðan ráðherrar hafa fengið heimild til að ráða tvo og þrjá,“ segir í bókun meirihlutans.

Sjálfstæðismenn í borgarráði létu að endingu bóka eftirfarandi:

„Á skrifstofu borgarstjóra á síðasta ári störfuðu yfir 50 manns en skrifstofan kostaði yfir 800 milljónir, þar af kostar pólitískur aðstoðarmaður borgarstjóra skattgreiðendur 20 milljónir á ári hverju.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert